Ekkert fararsnið er á sveit vopnaðra manna sem sölsaði undir sig byggingar alríkisstjórnarinnar á náttúruverndarsvæði í Oregon um helgina. Lögregla er ekki á staðnum en bandaríska alríkislögreglan FBI segist hafa forgöngu um rannsókn ástandsins á svæðinu.
Liðsmenn sveitarinnar hafa sagst tilbúnir að halda byggingunum hernámi í fleiri ár ef þörf krefur og útiloka ekki að beita vopnum sínum ef yfirvöld reyna að þvinga þá út. Engu að síður hafa þeir ekki gefið út neinar kröfur sem þeir vilja fá uppfylltar.
Hernámið hófst á laugardag í kjölfar mótmæla gegn fangelsisdómi yfir tveimur búgarðseigendum vegna íkveikju á Malheur-náttúruverndarsvæðinu sem er í eigu alríkisstjórnarinnar. Liðsmenn vopnuðu sveitarinnar segja náttúruverndarsvæðið vera skaðlegt fyrir íbúa sýslunnar og svæðisins. Þeir vilja að þeir fái að nýta landið og gæði þess án afskipta alríkisstjórnarinnar.
„Við erum ekki hryðjuverkamenn. Við erum áhyggjufullir borgarar og við gerum okkur grein fyrir að við verðum að grípa til aðgerða ef við viljum skilja eitthvað eftir handa börnunum okkar,“ segir Ammon Bundy, talsmaður sveitarinnar.
Fyrri frétt mbl.is: Hernámu náttúruverndarsvæði í Oregon
Alríkislögreglan FBI segist vinna með sýslumanninum á svæðinu, ríkislögreglu Oregon og öðrum löggæslustofnunum til þess að tryggja friðsamlega lausn á ástandinu. Ekkert lögreglulið er við náttúruverndarsvæðið, samkvæmt frétt CNN.
Juliette Kayyem, þjóðaröryggissérfræðingur CNN, segir að sveitin í Oregon séu án nokkurs vafa „innlendir hryðjuverkamenn“.
„Bara vegna þess að þeir eru ekki íslamskir jíhadistar þýðir það ekki að þeir megi hóta eða beita ofbeldi til að styðja stjórnmálaskoðanir sínar,“ skrifar Kayyem í viðhorfspistli.