Fjölmargar árásir á konur voru tilkynntar í þremur þýskum borgum á nýársnótt. Það sem vekur mestan ugg er að um þúsund ungir karlmenn komu saman í hópum að konunum, að því er virðist til þess eins að ræna þær, áreita og í að minnsta kosti einu tilviki, nauðga.
Tugir kvenna tilkynntu árásir sem áttu sér stað við lestarstöðina í Köln á gamlárskvöld og nýársnótt. Þá voru einnig tilkynntar árásir í Stuttgart og Hamborg.
Frétt mbl.is: Hópárás í Köln vekur óhug
Líkt og venja er kom fjöldi fólks saman utandyra til að fagna árámótunum í þessum borgum. Nú óttast lögreglan að ungu mennirnir hafi skipulagt sig, mögulega á samfélagsmiðlum, og gert árásirnar samtímis á mörgum stöðum, að því er fram kemur í þýskum fjölmiðlum og vitnað er til í frétt BBC.
Lögreglan þekkir til mannanna í Köln því þeir hafa komið við sögu hennar vegna vasaþjófnaðar. Lögreglan telur að einhverjir mannanna séu hælisleitendur, m.a. frá Norður-Afríku. Jafnréttisráðherra Þýskalands, hefur fordæmt árásirnar harkalega og segir að slíkt verði ekki umborið í landinu. Hins vegar varar hún við því að tengja glæpina beinlínis við fjölgun flóttafólks í landinu.