Ekki hægt að útiloka átök

Baráttan á milli súnní-múslíma og sjíta í Miðausturlöndum nálgast nú nýtt stig og alls ekki hægt að útiloka bein átök á milli ríkja eins og Írans og Sádi-Arabíu. Í mörg ár hafa ríkin háð harða baráttu um völdin án þess að til átaka hafi komið þrátt fyrir hættulegan leik að eldinum. En með aftökum á laugardag og árásum á sendiráð í kjölfarið virðist sem leikurinn að eldinum hafi snúist upp í ófriðarbál sem erfitt getur verið að hemja.

Í dag tilkynntu yfirvöld í Kúveit að þau ætluðu að kalla sendaherra sinn frá Íran í mótmælaskyni við árásir á sendiráð Sádi-Arabíu í höfuðborg landsins, Teheran. Þrátt fyrir að kalla sendiherra sinn heim þá verður sendiherra Írans í Kúveit ekki rekinn úr landi né heldur verður stjórnmálasambandi ríkjanna slitið. 

Spenna sem rekja má til tveggja meginfylkinga múslíma

Líkt og fram kemur í fréttaskýringu Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag þá fyrirskipaði stjórn Sádi-Arabíu írönskum stjórnarerindrekum að fara úr landi innan tveggja sólarhringa eftir að mótmælendur réðust inn í sendiráð Sáda í Teheran vegna aftöku sjeiks Nimr al-Nimr, klerks úr röðum sjíta í Sádi-Arabíu. Klerkurinn var sakaður um uppreisnaráróður gegn ríkinu og tekinn af lífi á laugardaginn var ásamt 46 öðrum, en flestir þeirra voru súnnítar og sakaðir um að vera viðriðnir hryðjuverk al-Qaeda.

„Sádar og Íranar hafa lengi eldað grátt silfur, einkum eftir byltinguna í Íran árið 1979 þegar klerkastjórnin komst til valda. Úlfúðina má meðal annars rekja til spennunnar milli tveggja meginfylkinga múslíma, en flestir íbúar Sádi-Arabíu eru súnnítar og sjítar eru í meirihluta í Íran. Ennfremur má rekja fjandskapinn til aldagamallar togstreitu og valdabaráttu milli araba og Persa.

Súnnítar eru um 85-90% múslíma í heiminum öllum en sjítar eru þó í meirihluta í Írak og Barein, auk Írans, og þeir eru einnig stór hluti íbúa í Aserbaídsjan, Jemen og Líbanon. Í Katar, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru fjölmennir minnihlutahópar sjíta og einnig í austanverðri Sádi-Arabíu. Um 15% íbúa landsins eru sjítar.

Auk mótmælanna í Íran var aftöku sjía-klerksins mótmælt í Írak, Barein og fleiri löndum. Sprengjuárásir voru gerðar á tvær moskur súnníta í Írak í gær og talið er að liðsmenn vopnaðra hópa sjíta hafi verið að verki, að sögn breska ríkisútvarpsins. Bænaklerkur einnar af moskum súnníta í Írak beið bana í skotárás.

Konungsríkið Barein ákvað að fara að dæmi Sádi-Arabíu og slíta stjórnarsamstarfi við Íran vegna árásarinnar á sendiráð Sáda í Teheran. Súnnítar eru við völd í Barein þótt sjítar séu þar í meirihluta og stjórn landsins hefur sakað Írana um að hafa kynt undir mikilli ólgu sem hefur verið meðal sjíta í landinu síðustu fjögur ár,“ segir í fréttaskýringu Boga Þórs. 

Hvað með Sýrland og Jemen?

Súdan sleit einnig stjórnmálasambandi við Íran í gær og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa einnig kallað sendiherra sinn heim og dregið úr stjórnmálasambandi við Íran en ríkin fjögur, Barein, Kúveit, Sádi-Arabía og SAF, eru aðilar að Persaflóaráðinu (Gulf Cooperation Council) auk Óman og Katar.

Kúveit hefur yfirleitt átt í ágætum samskiptum við Íran þrátt fyrir að hafa upprætt samtök sem grunuð eru um að hafa stundað njósnir þar í landi á vegum Írans. Um þriðjungur íbúa Kútveit eru sjítar. 

Það sem er stóra spurningin nú er hvaða áhrif þessar deilur hafa á átökin í Sýrlandi og Jemen þar sem súnní-múslímar í Sádi-Arabíu og sjíta-múslímar í Íran styðja andstæðar fylkingar en klerkastjórnin í Íran hefur verið, ásamt Rússum, helstu stuðningsmenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Á sama tíma hvetja Bandaríkin, Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkir, auk margra annarra, ríkin tvö til þess að stilla aðgerðum sínum í hóf svo mögulegt sé að ná stríðandi fylkingum í Sýrlandi og Jemen að samningaborðinu.

Rót vandans nær aftur til ársins 632

En aftur að rótum vandans, deilur um hver átti að taka við af spámanninum: „Klofningur múslíma í súnníta og sjíta varð eftir dauða Múhameðs spámanns árið 632. Hann dó án þess að hafa tilnefnt eftirmann sinn og fylgismenn hans tóku að deila um hver ætti að fara fyrir múslímum. Sumir þeirra töldu að velja ætti nýjan leiðtoga með almennu samkomulagi, en aðrir að aðeins afkomendur spámannsins gætu orðið kalífi, andlegur og veraldlegur leiðtogi múslíma. Súnnítar líta svo á að Abu Bakr, tengdafaðir spámannsins, hafi réttilega verið kjörinn fyrsti kalífinn. Sjítar telja hins vegar að Alí, bræðrungur og tengdasonur Múhameðs, hefði átt að verða fyrsti kalífinn og einungis afkomendur hans og Fatímu, dóttur Múhameðs, gætu gegnt leiðtogahlutverkinu.

Alí var að lokum kjörinn kalífi eftir að tveir eftirmenn Abu Bakr voru ráðnir af dögum. Alí var einnig myrtur og synir hans, Hasan og Hussein, gerðu tilkall til leiðtogatitilsins. Hussein og nær allir í fjölskyldu hans voru myrtir í Karbala í Írak árið 680 og sjítar minnast dauða hans ár hvert á fyrsta mánuði íslamska dagatalsins. Alí fékk titilinn ímam hjá sjítum sem telja slíka menn syndlausa og óskeikula leiðtoga íslams. Sumir sjítar, svonefndir tólfungar, trúa því að ímamarnir séu alls tólf. Tólfti og síðasti ímaminn hvarf árið 878 en sjítar telja að hann lifi hulinn og snúi aftur sem mahdi á efsta degi og stofni ríki réttlætis á jörðinni. Að því leyti líkist hann Kristi,“ segir í fréttaskýringu Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Margt líkt með andstæðingum

En þrátt fyrir að vera andstæðar fylkingar þá er ansi margt líkt með Sádi-Arabíu og Íran en bæði ríkin hafa verið refsiglöð þegar kemur að aftökum og meðal þeirra ríkja heims sem taka flesta fanga af lífi ár hvert. 

Þrátt fyrir mótmæli stjórnvalda í Íran vegna aftökunnar á sjíta-klerknum Nimr al-Nimr á laugardag þá hafa fjölmargir súnní-múslímar verið teknir af lífi í Íran. Bæði ríkin eru snögg að grípa til vopna, bæði heima og heiman, og bæði eiga þau mikið undir olíuviðskiptum. Á sama tíma og heimsmarkaðsverð á olíu fer lækkandi fjölgar landsmönnum og spennan innan ríkjanna sjálfra fer vaxandi. 

Í Sádi-Arabíu býr sjíta minnihlutinn við mun lakari kjör en súnnítar og færri atvinnutækifæri sem og möguleika á námi. Þegar arabíska vorið var í algleymi árið 2011 fór óánægja sjíta í landinu ekki leynt og Nimr al-Nimr, sem  þegar var þekktur fyrir afstöðu sína til mismununar í landinu, varð leiðtogi mótmælahreyfingar í austurhluta landsins þar sem sjíar eru fjölmennir. Yfirvöld brugðust harkalega við og ákærðu Nimr fyrir brot á hryðjuverkalöggjöf þrátt fyrir að hann hafi alltaf lagt áherslu á friðsamleg mótmæli. 

Réttarhöldin minntu á farsa

Guardian segir að réttarhöldin yfir honum árið 2014 hafi minnt mest á farsa og ef Abdúllah hefði enn verið konungur þá hefði örugglega ekki komið til þess að hann yrði tekinn af lífi heldur látinn dúsa í fangelsi en með refsiglöðum nýjum konungi sem sé mikið í mun að sýna völd sín hafi staðan breyst og aftökum fjölgað. 

Ekki sé staðan nokkru betri í Íran, að sögn Guardian. Þar séu súnní-múslímar teknir af lífi af minnsta tilefni. En Íran á sennilega meira undir nú heldur en oft áður því ekki er langt síðan gengið var frá samkomulagi um að Íranar myndu draga úr kjarnorkutilraunum sínum gegn því að viðskiptaþvingunum yrði aflétt. 

Ef spennan vex þá kemur það bæði Íran og Sádi-Arabíu illa. Ef mótmælendum vex fiskur um hrygg í Sádi-Arabíu og þeim verður svarað af hörku þá er hætt við því að ástandið verði stjórnlaust og svipaða sögu má segja af Íran þar sem ólíkir hópar takast á undir yfirborðinu.

Ekki á að svara gagnrýni með því að afhöfða klerk

Forseti Írans, Hassan Rouhani, sagði í dag að ekki sé hægt að svara gagnrýni með því að afhöfða menn. Þrátt fyrir að ekki hafi verið upplýst um hvaða aðferð var beitt við aftöku Nimr þá er algengast að fangar séu afhöfðaðir með sverði í Sádi-Arabíu. 

Rouhani sagði af sama tilefni: „Sádi-Arabía getur ekki breytt yfir glæp sinn að hafa afhöfðað klerk með því að slíta sambandinu við Íran.“

Í desember sátu utanríkisráðherrar landanna beggja við sama borð á fundi í New York þar sem umræðuefnið var stríðið í Sýrlandi. Boðað hefur verið til næsta fundar 25. janúar í Genf og er það samningamaður Sameinuðu þjóðanna, Staffan de Mistura, sem mun stýra þeim fundi. Hvort af þeim fundi verður leiða næstu dagar í ljós en allir gera sér ljóst hversu mikilvægt það er að það dragi úr spennunni á milli ríkjanna.

Guardian

BBC

New York Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert