Öryggissérfræðingar telja það skynsamlegt hjá yfirvöldum að láta vopnaða sveit manna sem heldur alríkisbyggingu á náttúruverndarsvæði í Oregon afskiptalausa. Sveitin, sem nú kallar sig Borgarar fyrir stjórnarskrárlegt frelsi, vill að alríkisstjórnin gefi frá sér stjórn á Malheur-skóginum.
Ótilgreindur fjöldi vopnaðra manna hefur haldið byggingum á Malheur-náttúruverndarsvæðinu í strjálbýli Oregon-ríkis í Bandaríkjunum í nokkurs konar hernámi frá því á laugardag. Lögregluyfirvöld hafa ekki verið á staðnum en fyrrverandi fulltrúi alríkislögreglunnar FBI sem CNN hefur rætt við telur það góða nálgun.
„Það er engin ástæða í raun og veru að ráðast inn á þessari stundu og FBI veit það,“ segir Steve Moore, fyrrverandi fulltrúi alríkislögreglunnar. Yfirvöld hafi lært þá lexíu af atburðum eins og í Waco í Texas árið 1993 þar sem tugir manna sem tilheyrðu sértrúarsöfnuði létust eftir umsátursástand sem varði í 51 dag.
Moore segir ennfremur að eina ástæðan fyrir FBI til að breyta þessar nálgun væri ef vopnaða sveitin ógnaði lífi annars fólks.
Talsmaður sveitarinnar, Ammon Bundy, setti fyrstu fullmótuðu kröfur hennar fram á Twitter í gærkvöldi. Þar kom fram að liðsmenn hennar ætluðu ekki að yfirgefa byggingarnar fyrr en feðgum sem voru dæmdir fyrir íkveikju á alríkislandi verður sleppt og alríkisstjórnin lætur eftir stjórn á Malheur-þjóðlendunni. Færslunni var hins vegar síðar eytt.
Frétt CNN af hernáminu í Oregon
Fyrri fréttir mbl.is:
Ná sér niðri á alríkisstjórninni