Rannsakendur reyna nú að komast að því hvað Syed Farook og Tashfeen Malik gerðu á átján mínútum þar sem ekkert sást til þeirra á flóttanum undan lögreglu eftir að hafa drepið fjórtán manns í skotárás í Kaliforníu í síðasta mánuði. Greint var frá þessu á blaðamannafundi FBI í gær. Óskað er eftir aðstoð almennings við að rekja ferðir hjónanna þessar mínútur.
Að sögn David Bowdich, talsmanns bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfirgaf Farook heimili sitt klukkan 8:37 að staðartíma þann 2. desember á síðasta ári. Nú hefur lögregla náð að rekja ferðir hans og eiginkonu hans frá þeim tíma þar til þau voru skotin til bana í skotbardaga við lögreglu um fjórum tímum eftir að þau hófu skothríð í jólaboði á vinnustaði Farook, fyrir utan fyrrnefndar átján mínútur, frá klukkan 12:59 til 13:17 eftir hádegi.
Grunur leikur á að hjónin hafi farið einhversstaðar inn á þeim átján mínútum þar sem ekki sást til þeirra, hvorki á upptökum eftirlitsmyndavéla eða af vitnum. Getur verið að þau hafi farið inn í geymsluhúsnæði, á heimili eða inn í fyrirtæki.
„Við viljum vita eins mikið og við getum um ferðir þeirra fyrir og eftir skotárásina,“ sagði Bowdich. Hann bætti við að svo virðist sem bifreið hjónanna, sem þau flúðu vettvang árásarinnar á, hafi verið ekið tilviljanakennt um miðborg San Bernardino. „Þau fóru fram og til baka um borgina og höfum við ekki séð neina ákveðna leið í ferðum þeirra,“ sagði Bowdich.
Farook og Malik fóru m.a. að litlu stöðuvatni í almenningsgarði og sátu í einhvern tíma í bílastæðahúsi. Hjónin fóru síðan heim til sín í stutta stund en létu lífið stuttu síðar.
Að sögn Bowdich hafa yfirvöld haldið 550 viðtöl og safnað um 500 sönnunargögnum við rannsókn málsins. Rannsakendur telja að hjónin hafi verið undir áhrifum íslamskra öfgamanna, en ekki stjórnað beint af erlendum aðilum.
Samkvæmt fyrstu fregnum af árásinni átti Farook að hafa yfirgefið jólaboðið í fússi en komið síðan aftur, þá vopnaður. Að sögn yfirvalda er þó ekkert sem bendir til þess að Farook hafi verið ósáttur í boðinu. Hann á meðal annars að hafa stillt sér upp fyrir myndatökur í boðinu ásamt vinnufélögunum.
Vinur hjónanna, Enrique Marquez Jr., sem keypti árásarrifflana sem notaðir voru í árásinni, hefur verið ákærður fyrir að tengjast hryðjuverkum. Hann var ákærður í fimm liðum og gæti verið dæmdur í allt að 50 ára fangelsi verið hann dæmdur sekur.