Kýs frekar dauða en fangelsi

Lavoi Finicum ræðir við fréttamenn.
Lavoi Finicum ræðir við fréttamenn. AFP

Einn þeirra vopnuðu manna sem tekur þátt í hernámi á náttúruverndarsvæði í Oregon segist frekar vilja deyja í baráttunni heldur en að vera handtekinn. Í dag er fimmti dagur hernámsins í náttúruverndarsvæðinu Malheur National Wildlife Refuge en vopnaðir menn tóku yfir byggingu á svæðinu á laugardaginn.

Lögregla hefur ekki enn reynt að endurheimta svæðið en samkvæmt frétt NBC reynir bandaríska alríkislögreglan nú að leysa málið með handtökuskipunum.

Hinn 54 ára gamli LaVoy Finicum tekur þátt í hernáminu. Hann er bóndi frá Arizona ríki sem á ellefu börn en hann er mormónatrúar. Hann sagði í samtali við NBC frekar vilja deyja í hernáminu heldur en að vera handtekinn. „Ég ætla mér ekki að eyða tíma í steypukassa,“ sagði Finicum.  

„Það eru hlutir sem eru mikilvægari en það að  lifa og frelsi er eitt þeirra,“ sagði hann. „Ég er tilbúinn til að verja frelsið.“

Þegar fréttamaður NBC ræddi við Finicum sat hann fyrir utan bygginguna, aðeins með svefnpoka og segldúk til þess að halda á sér hita. Hann var einnig vopnaður byssu, eins og flestir aðrir sem taka þátt í hernáminu.

Í samtali við NBC vildi Finicum koma skilaboðum til lögreglunnar. „Ekki beina byssum að mér,“ sagði hann og sagði jafnframt að hann sæti fyrir utan húsið til þess að lögreglan vissi hvar hann væri. „Ég vil ekki að þeir þurfi að hlaupa um í myrkrinu, sparkandi upp hurðum til að leita að mér. Ég vil að þeir viti nákvæmlega hvar ég er.“

Finicum gaf þó til kynna að hann væri kominn með nóg af stöðunni og þyrfti að komast heim til að sinna kúm sínum.

Eins og fyrr segir hófst hernámið á laugardaginn og hafa þátttakendur heitið því að gefast ekki upp fyrr en land, sem er nú í eigu ríkisins, verði afhent „aftur til fólksins“.

Leiðtogar hernámsins eru bræðurnir Ammon og Ryan Bundy en þeir eru synir bóndans Cliven Bundy, sem er þekktur andstæðingur yfirvalda.

Hópurinn hefur einnig krafist þess að feðgunum Dwight Hammond og Steven Hammond, verði sleppt úr fangelsi en þeir voru dæmdir sekir um íkveikju. Þeir gáfu sig fram á mánudaginn við lögreglu og eru nú í haldi.

Hammond feðgarnir og bændasamtök í Oregon hafa hinsvegar fordæmd hernámið og kallað það „ólöglegt athæfi gegn stjórninni.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Kveikir umræðu um kynþátt og hryðjuverk

Skynsamlegt að láta sveitina í friði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka