Líkti staðgöngumæðrun við kynferðisglæpi

Angelino Alfano t.h. ásamt frönskum kollega sínum.
Angelino Alfano t.h. ásamt frönskum kollega sínum. AFP

Innanríkisráðherra Ítalíu hefur kallað eftir því að farið verði með staðgöngumæður eins og kynferðisafbrotamenn. Hann er mótfallinn hugmyndum forsætisráðherra landsins, sem vill veita samkynja pörum ýmis fjölskylduréttindi.

Guardian hefur eftir Angelino Alfano að „útleiga legsins“ ætti að flokkast til glæpa og viðurlögin ættu að vera fangelsisvist, líkt og þegar um væri að ræða kynferðisglæpi. Staðgöngumæðrun er ólögleg á Ítalíu en Alfano hefur haldið því fram að með því að heimila stjúpættleiðingar, þar sem einstaklingur ættleiðir barn maka síns, verði opnað fyrir að samkynhneigðir nýti sér þjónustu staðgöngumæðra.

Hjónabönd samkynja para og stjúpættleiðingar eru meðal þeirra mála sem hafa reynst forsætisráðherranum Matteo Renzi einna erfiðust viðfangs, en Mario Colamarino, forseti réttindasamtakanna Circolo Mario Mieli, sagði ummæli innanríkisráðherrans óásættanleg og að stjúpættleiðingar ættu sér í raun þegar stað en með þeim hætti að börnin væru réttindalaus.

Þrátt fyrir að málið sé umdeilt á Ítalíu hefur Renzi heitið því að keyra það í gegn en hefur heimilað þingmönnum flokks síns að kjósa eftir samvisku sinni. Forsætisráðherrann er undir þrýstingi frá mannréttindadómstól Evrópu, sem komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að ítölsk stjórnvöld hefðu brotið gegn samkynja pörum með því að meina þeim um lagaleg réttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert