Lögreglustjóri í Harney sýslu í Oregon hefur krafist þess að hópur manna sem hernam náttúruverndarsvæði í eigu yfirvalda í sýslunni um helgina yfirgefi svæðið. „Þið fáið ekki að koma hingað og segja okkur hvernig við eigum að lifa okkar lífi,“ sagði lögreglustjórinn David Ward í gærkvöldi á íbúafundi. Íbúarnir fögnuðu Ward þegar hann lýsti því yfir að mennirnir þyrftu að koma sér heim.
Hópur vopnaðra manna hernam náttúruverndarsvæðið Malheur National Wildlife Refuge á laugardaginn. Hópurinn segist vera að mótmæla aðgerðum stjórnvalda og krefjast þess að bændur fái lönd sín til baka. Hernámið varð í kjölfar friðsamlegra mótmæla á laugardaginn þegar að fangelsisdómum tveggja bænda á svæðinu var mótmælt.
Að mati Wards „rændu“ bændurnir sem taka þátt í hernáminu mótmælunum. „Ég er kominn hingað til að biðja þetta fólk um að fara heim og leyfa okkur í Harney sýslu að halda áfram með líf okkar.“
Ward var fagnað og klöppuðu íbúar fyrir lögreglustjóranum.
„Farið heim til ykkar og vinnið í ágreiningnum með viðeigandi leiðum,“ bætti hann við.
Skólum í bænum Burns hefur verið lokað síðan að hernámið hófst en í bænum búa 2.800 manns. Á miðvikudaginn hétu allir 36 lögreglustjórar ríkisins því að aðstoða sýsluna við að stöðva hernámið. Bandaríska alríkislögreglan hefur sagt ekki vilja þurfa að grípa til ofbeldis vegna hópsins.