Hörð gagnrýni á dönsk stjórnvöld

AFP

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna sakar dönsk stjórnvöld um að auka hættuna á ótta og útlendingahatur í landinu með nýjum hertum reglum varðandi innflytjendur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNHCR um Danmörku.

Skýrslan, sem er 18 blaðsíður, var gefin út í gær, en þar sakar UNHCR dönsk yfirvöld um að brjóta gegn langri hefð þess að veita þeim sem eru í sárri neyð skjól. Það geri Danir með nýrri löggjöf varðandi málefni innflytjenda.

Tilgangur danskra stjórnvalda með frumvarpinu sé að senda þau skilaboð til flóttafólks að Danmörk sé óspennandi kostur þegar kemur að því að sækja um hæli. Þetta séu sérstök skilaboð til fólks sem er mikilli neyð, segir í skýrslunni.

Það veki upp spurningar hjá UNHCR að Danir skuli velja þá leið að herða reglur varðandi hælisumsækjendur í þeim eina tilgangi að fækka þeim sem sækja um hæli í landinu í stað þess að einbeita sér að því að styðja við og aðstoða við réttláta skiptingu flóttafólks innan ríkja Evrópusambandsins.

Flóttamannaaðstoðin segist ósammála áætlunum danskra stjórnvalda um að herða reglur varðandi sameiningu fjölskyldna og eins að nánast útiloka að fólk geti fengið búseturétt í landinu til lengri tíma. Þetta geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér þegar kemur að því að flóttafólk aðlagist dönsku samfélagi.

Í skýrslunni segir að áætlun dönsku ríkisstjórnarinnar að krefja hælisleitendur um að afhenda verðmæti í sinni eigu við komuna til landsins atlögu að sæmd fólks og að um gerræðislega atlögu að einkalífi fólks sé að ræða.

Dönsk yfirvöld eru hvött til þess af UNHCR að endurskoða frumvarpið í skýrslunni en það þykir ólíklegt þar sem það nýtur stuðnings meirihluta þingsins og verður væntanlega að lögum á næstu vikum.

Líkt og komið hefur fram var landamæraeftirliti komið á í Danmörku og Svíþjóð fyrr í vikunni til þess að draga úr straumi flóttafólks til landanna en því eftirliti verður væntanlega hætt fljótlega. Þetta var niðurstaða neyðarfundar sem var haldinn í Brussel í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert