Fundaði með lögreglustjóranum

Ammon Bundy stjórnar hernáminu.
Ammon Bundy stjórnar hernáminu. AFP

Lögreglustjórinn í Harney-sýslu í Oregon fundaði í gær með forsprakka hernámsins á Malheur náttúruverndarsvæðinu sem hefur nú staðið yfir í sex daga. Lögreglustjórinn David Ward sagði á íbúafundi á miðvikudaginn að nú væri kominn tími til að hópurinn sem hernam svæðið kæmi sér heim.

Samkvæmt frétt NBC var fundur þeirra Ward og Ammon Bundy stuttur en þeir ræddu kurteislega saman við gatnamót nálægt náttúruverndarsvæðinu.

„Ég er hér því íbúar Harney sýslu hafa beðið mig um að ræða við ykkur og biðja ykkur um að yfirgefa svæðið friðsamlega,“ sagði Ward og bauð hópnum „örugga fylgd“ út af svæðinu.

Bundy neitaði tilboðinu og sagði hann og félaga hans hafa verið „hunsaða aftur“.

„Til þess að ríkisstjórnin verði lögmæt í Bandaríkjunum, þarf hún að bæta úr reiði borgaranna,“ sagði hann.

Mennirnir tókust síðan í hendur og fóru sína leið. Að sögn lögreglustjórans munu þeir funda aftur í dag.

Þeir Ammon og Ryan Bundy eru forsprakkar hernámsins sem hófst eins og fyrr segir á laugardaginn. Þeir halda því fram að markmið hernámsins sé að fá tvo bændur, Dwight Hammond og son hans Steven Hammond lausa úr fangelsi. Einnig vilja þeir að stjórnvöld afhenti bændum lönd sem þeir segja hafa verið stolin af þeim.

David Ward er lögreglustjórinn í Harney-sýslu
David Ward er lögreglustjórinn í Harney-sýslu AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert