Eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman er kominn aftur á sinn stað: Í fangelsið sem hann strauk svo eftirminnilega úr fyrir hálfu ári. Guzman hvarf úr klefa sínum í gegnum göng sem grafin höfðu verið út úr öryggisfangelsinu. Hann var handtekinn í gær í borginni Los Mochis í Mexíkó. Borgin er í heimaríki hans, Sinaloa, þar sem hann byggði upp eitt alræmdasta eiturlyfjaveldi sem sögur fara af.
Guzman er enginn venjulegur maður. Það er ekki hægt að halda því fram nú þegar honum hefur tekist að flýja tvisvar úr fangelsi og er nú kallaður „Guð ganganna“ en í annað skiptið komst hann undan í gegnum göng. Þá hefur hann einnig orðið uppvís að því að smygla fíkniefnum til Bandaríkjanna í gegnum flókin og háþróuð göng undir landamærin við Mexíkó.
Reyndar er það þannig að Guzman slapp einnig í gegnum göng rétt áður en hann var handsamaður á föstudag. Þá lagði hann á flótta um holræsakerfi í borginni Los Mochis en var svo handtekinn af hermönnum skömmu síðar á stolnum bíl.
Áður fyrr var Guzman kallaður „Sá stutti“ en hann hafði ítrekað notað peninga sem hann græddi af eiturlyfjaveldi sínu, sem teygir anga sína til Evrópu og Asíu, til að grafa sig út úr vandræðum.
Baðkar í einu húsa hans var í raun aðgangur að flóttaleið í gegnum holræsakerfi en það notaði hann til að flýja undan hermönnum snemma árs 2014. Hann endurtók svo þennan leik er hann flúði úr fangelsinu í fyrrasumar.
Bandarísk og mexíkósk yfirvöld hafa reglulega uppgötvað göng, sum búin járnbrautum og rafmagni, sem notuð voru til að smygla marijúana, kókaíni og öðrum fíkniefnum til Bandaríkjanna. Í hina áttina voru svo peningar og vopn flutt um göngin.
Guzman er 58 ára. Hann hefur ítrekað stungið lögregluna af sem hefur ekki orðið til þess að auka traust fólks á yfirvöldum í Mexíkó.
Þann 11. júlí í fyrra, eftir að hafa verið fangi í Altiplano-fangelsinu í Mexíkó í sautján mánuði, hvarf Guzman ofan í holu í sturtu í fangaklefa sínum, fór á bak mótorhjóli og fór á því út í frelsið í gegnum 1,5 km löng göng.
Bandarísk og mexíkósk yfirvöld segja að Guzman hafi þaðan flúið á sínar heimaslóðir í Sinaloa því þar er hann álitinn nokkurs konar Hrói höttur nútímans. Þar býr móðir hans sem er á níræðisaldri.
Guzman rétt slapp undan hernum í október en þá var hann staddur í fjalllendi í heimaríki sínu. Yfirvöld sögðu að í þeirri aðgerð hafi hann slasast á andliti og fæti er hann féll við á flóttanum. En hann komst engu að síður undan.
Fréttamaður AFP sem heimsótti svæðið skömmu eftir lögregluaðgerðina, segir að hús og bílar hafi verið sundurskotnir. Íbúar sögðu að skotið hefði m.a. verið úr þyrlum og hundruð hafi lagt á flótta.
Guzman var handsamaður þann 22. febrúar árið 2014 í Sinaloa. Þar hafði hann komið sér fyrir í íbúð ásamt eiginkonu sinni og ungum tvíburadætrum. Hann hafði þá verið á flótta undan lögreglunni í þrettán ár en árið 2001 tókst honum að strjúka úr fangelsi með því að fela sig í þvottakörfu. Þá hafði hann verið í fangelsi í átta ár eftir að hafa verið handtekinn í Gvatemala árið 1993.
Guzman er goðsögn í undirheimum Mexíkó og tónlistarmenn syngja honum lofljóð. Hann er sagður svo virtur að er hann gekk inn á veitingahús í Sinaloa á meðan hann var á flótta rétti fólk honum farsíma sína og þar gat hann snætt í ró og næði án þess að nokkur reyndi að láta lögregluna vita af ferðum hans.
Hann er fæddur 4. apríl árið 1957. Foreldrar hans voru bændur á svæði sem þekkt er fyrir fíkniefnaframleiðslu og smygl.
Guzman hætti snemma í grunnskóla til að vinna á ökrum þar sem marijúana og ópíum var ræktað. Þá var neyslan í Bandaríkjunum að aukast og útflutningur efnanna orðinn mjög arðbær.
Hann gekk svo til liðs við eiturlyfjasalann Miguel Angel Felix Gallardo sem sagður er guðfaðir nútíma eiturlyfjahringja. Þar hafði hann það starf að vera í sambandi við smyglara í Kólumbíu.
Eftir að Felix Gallardo var handtekinn árið 1989 fór hann að byggja sitt eigið eiturlyfjaveldi í Sinaloa.
En hann átti óvini.
Í skotbardaga á flugvelli í Guadalajara árið 1993 var erkibiskupinn og kardínálinn Juan Jesus Posadas Ocampo. Talið er að hann hafi verið skotinn í misgripum fyrir Guzman.
Er Guzman hóf að smygla tonnum af kókaíni, heróíni og marijúana til Bandaríkjanna hlaut að fljótlega viðurnefnið „óvinur ríkisins númer eitt“ í Chicago, rétt eins og glæpaforinginn Al Capone forðum.
Guzman var lengi vel á lista Forbes viðskiptablaðsins yfir ríkasta fólk heims en árið 2013 hvarf nafn hans af listanum þegar þótti ljóst að hann hefði eitt miklu af auð sínum sér til verndar.
Árið 2007 giftist hann átján ára gamalli fegurðardrottningu, Emmu Coronel, en talið er að hann eigi að minnsta kosti tíu börn með nokkrum konum.
Fjölskyldan hefur þurft að gjalda glæpalíf hans dýru verði. Einn bróðir hans var drepinn í mexíkósku fangelsi árið 2004 og sonur hans var skotinn til bana á bílastæði við verslunarmiðstöð árið 2008.
Og nú er Guzman, Guð ganganna, aftur kominn bak við lás og slá. En hversu lengi, það er spurningin.