Angela Merkel kanslari Þýskalands íhugar breytingar á lögum svo auðveldara verði að vísa hælisleitendum sem fremja glæpi úr landi. Þetta gerir hún í kjölfar umfjöllunar um kynferðisárásir sem framdar voru í Köln og víðar í Þýskalandi á nýársnótt.
Árásirnar hafa vakið umræður um stefnu Þýskalands í innflytjendamálum. Þá hefur lögreglan einnig verið harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð sín og meint getuleysi við að koma í veg fyrir brotin og að handsama brotamennina. Í gær var 31 maður handtekinn grunaður um að hafa tekið þátt í árásunum á nýársnótt. 170 tilkynningar um rán eða kynferðisbrot hafa borist lögreglu eftir nóttina. Í frétt CNN segir að 18 hinna handteknu séu hælisleitendur í Þýskalandi.
Lögreglustjóra Kölnar var vikið úr starfi í gær en meðal þess sem hefur verið gagnrýnt er að of fáir lögreglumenn voru að störfum er mikill mannfjöldi safnaðist saman við aðalbrautarstöðina. Þá kemur fram í þýska dagblaðinu Spiegel að hópur manna hafi hindrað lögregluna við störf sín. Hún hafi t.d. ekki getað nálgast konur sem voru að hrópa á hjálp.
Sambærilegar árásir voru tilkynntar í fleiri borgum Þýskalands, m.a. Hamborg og Stuttgart. Þá var einnig tilkynnt um árásir í Svíþjóð og Finnlandi.
Í frétt BBC segir að samkvæmt núgildandi lögum í Þýskalandi sé aðeins hægt að vísa hælisleitendum úr landi hafi þeir verið dæmdir í að minnsta kosti þriggja ára fangelsi. Í fréttinni kemur fram að félagar Merkel í flokki hennar, Kristilegum demókrötum, ætli að leggja til að hægt verði að vísa hælisleitendum úr landi óháð lengd dóms sem þeir kunna að hljóta fyrir brot sín.
Flokkurinn mun funda í dag, laugardag.
Skiptar skoðanir eru í Þýskalandi um hvort ástæða sé til að breyta lögunum. Margir vilja meina að vandamálið liggi frekar hjá lögreglunni sem hafi ekki verið í stakk búin að bregðast við árásunum.
Þá vara margir við því að árásirnar séu notaðar til að ala á fordómum í garð útlendinga í Þýskalandi en landið hefur tekið við flestum flóttamönnum allra Evrópulanda í ár.
Ítarlega er fjallað um málið og viðbrögð Merkel í þýskum dagblöðum í dag. „Vinalega andlit Merkel er farið,“ skrifar m.a. Philipp Wattrock í Der Spiegel.