Lögreglan í Köln segir fjölda tilkynntra ofbeldismála frá nýársnótt nú vera 379 talsins. Segir lögreglan meirihluta grunaðra vera hælisleitendur og ólöglega innflytjendur.
„Þeir sem eru í miðpunkti rannsóknar lögreglu eru mestmegnis fólk frá norður afrískum löndum. Meirihluti þeirra eru hælisleitendur og fólk sem dvelst ólöglega í Þýskalandi,“ sagði lögreglan í yfirlýsingu.
Samkvæmt yfirlýsingu snýst um 40 prósent málanna um kynferðisofbeldi að því er AFP greinir frá.
Enn er óljóst hvort þeir fáu menn sem grunaðir eru um aðild að glæpunum verði kærðir en 100 rannsakendur vinna að rannsókna málanna.
Í dag hafa staðið yfir mótmæli í borginni af ýmsum toga. Segir Independent lögreglu m.a. hafa notast við vatnsslöngur og piparúða til að halda aftur af yfir eitt þúsund manns sem komu saman til að sýna andstöðu sína við innflytjendur og flóttafólk. Mótmælin voru skipulögð af öfgasamtökunum Pegida sem fara fram á að Þýskaland loki landamærum sínum til að „verja borgara sína“ vegna árásanna.
Hópnum mætti hinsvegar sterk andstaða í formi gagnmótmæla þar sem gengið var gegn kynþáttahatri, kynferðisofbeldi og íslamafóbíu og réttur flóttafólks til að leita sér öruggs skjóls varinn.
Mótmæli Pegida áttu að hefjast klukkan 14 á aðaltorgi borgarinnar í dag og aðeins tveimur tímum síðar var óeirðalögregla komin á staðinn til að rýma svæðið. Sumir mótmælenda Pegida höfðu kveikt á flugeldum á torginu og kastað flöskum skilrúmum, grjóti og jafnvel blómapottum að lögreglu. Hafði Pegida áður beðið styðjendur sína um að stuðla að því að mótmælin yrðu friðsæl, m.a. með því að klæðast litríkum fötum „til þess að virðast ekki ógnandi.“
Veifuðu stuðningsmenn Pegida m.a. skiltum og fánum þar sem stóð „flóttamenn EKKI velkomnir“, ásakanir um að flóttamenn væru nauðgarar og með áköllum eftir því að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segi af sér fyrir að bjóða Sýrlendinga velkomna fyrr á árinu.
Nokkur hundruð metrum í burtu var gagnmótmælendum haldið aftur af lögreglu. Veifuðu þeir skiltum með slagorðum á við „á móti rasisma, á móti sexisma“, „Nei við fasisma,“ og vísun í nasisma fyrri tíðar með „Aldrei aftur“.
Á Facebook síðu sinni segir Pegida að yfir 3.000 manns hafi tekið þátt í mótmælum samtakanna. Lögregla telur hinsvegar að um 1.700 manns hafi verið í mótmælum Pegida en um 1.300 í gagnmótmælunum. Síðdegis höfðu fjórir verið handteknir en engar fréttir hafa borist af slysum tengdum mótmælunum.
Talsmaður lögreglu segir andrúmsloftið hafa verið tilfinningaþrungið og að 1.700 lögreglumenn hafi verið kallaðir til, til að stuðla að því að allt færi vel fram.
Fyrr í dag mótmæltu um eitt þúsund konur kynferðisofbeldi utan við dómkirkjuna í Köln.
„Nei þýðir nei. Haldið ykkur frá líkömum okkar,“ mátti sjá á skilti eins mótmælanda.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru 22 þeirra 32 manna sem grunaðir erum um kynferðisofbeldi í borginni á nýársnótt með stöðu hælisleitenda.
Angela Merkel lofaði í dag að herða núgildandi reglur þar sem hælisleitendum er aðeins vísað úr landi ef þeir eru dæmdir í þriggja ára fangelsi eða meira.
„Rétturinn til hælis getur tapast ef einhver er hlýtur dóm til skilorðs eða til fangelsisvistar,“ sagði Merkel eftir fund með stjórn flokks síns, Kristnum demókrötum.
„Síbrota menn sem síendurtekið ræna eða síendurtekið lítilsvirða konur verða að finna fyrir fullum krafti laganna.“