Tilkynnt um árásir í Salzburg

AFP

Tilkynningar hafa borist lögreglunni í borginni Salzburg í Austurríki um ofbeldi gegn konum á nýársnótt þar sem talið er að hælisleitendur hafi komið við sögu. Fram kemur í frétt Thelocal.at að austurríska lögreglan hafi staðfest að nokkur fjöldi slíkra mála sé til rannsóknar og að til þessa hafi þrír karlmenn verið handteknir í tengslum við þau.

Fréttir hafa að undanförnu borist frá ýmsum borgum í Evrópu um árásir á konur á nýársnótt og þar á meðal kynferðisofbeldi. Ekki síst í þýsku borginni Köln þar sem á fjórða hundrað kæra hafa verið lagðar fram. 

Gerendurnir munu mestmegnis vera karlmenn af arabískum og norðurafrískum uppruna. Meirihluti grunaðra hefur stöðu hælisleitenda í Þýskalandi eða dvelst með ólögmætum hætti í landinu.

Fram kemur í frétt Thelocal.at að 23 ára karlmaður sé grunaður um að hafa ráðist á unga þýska konu í miðborg Salzburg og síðan skotið flugeldi í áttina að 17 ára gamalli stúlku sem veitt hafi henni áverka á maga. Maðurinn sé af sýrlenskum uppruna að sögn lögreglu. Fyrr í vikunni hafi nokkrar konur haft samband við lögregluna í borginni og kært kynferðisbrot.

Rúmlega tvítug kona greindi frá áreiti frá hópi karlmanna í miðborginni sem kveður hafa káfa á henni og síðan stolið farsímanum hennar. Hún sagði lögreglu að um 8 til 10 menn hafi verið að ræða sem virtust vera útlendingar. Tæplega sextug kona sagðist hafa orðið fyrir kynferðisbroti í miðborginni af hálfu 28 ára gamals manns. Hún tilkynnti árásina strax í kjölfarið og var maðurinn handtekinn. Lögreglan segir hann af afgönskum uppruna.

Ennfremur varð 28 ára gömul kona fyrir kynferðisofbeldi fyrir utan skemmtistað í Salzburg 30. desember. Dyraverðir staðarins náðu að yfirbuga manninn og halda honum þar til lögreglan kom á vettvang og handtók hann. Maðurinn er einnig af afgönskum uppruna samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Verið er að rannsaka hvort um skipulagðar árásir var að ræða.

Haft er eftir talsmanni lögreglunnar að mörg brotanna hafi ekki verið tilkynnt fyrr en fréttir fóru að berast af ofbeldinu gegn konum í Köln. Lögregluyfirvöld hafa hvatt fólk til þess að láta árásirnar ekki hafa óeðlileg áhrif á afstöðu þess til innflytjendamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert