Þýsk yfirvöld greina frá því í dag að nánast allir árásarmennirnir í Köln á nýársnótt séu útlendingar. Yfir 500 kærur hafa borist vegna árása á konur í Köln þessa nótt.
Ralf Jäger, innanríkisráðherra Norður-Rínarhéraða (Nordrhein-Westfalen) segir að þetta komi fram hjá nánast öllum fórnarlamba mannanna.
Líkt og kom fram á mbl.is í morgun var ráðist á förufólk frá Pakistan og Sýrlandi í Köln í gærkvöldi en árásirnar á nýársnótt hafa kynt undir ótta meðal Þjóðverja sem og flótta- og farandfólks. Könnun dagblaðsins Bild am Sonntag sýnir að 39% aðspurðra töldu sig ekki njóta nægrar verndar, á meðan 57% töldu svo vera. Rétt tæpur helmingur aðspurðra, eða 49%, taldi að álíka ofbeldi gæti átt sér stað í sínum heimabæ. Margir flóttamenn óttast um hag sinn í Þýskalandi eftir árásirnar og telja að hatursglæpum í þeirra garð eigi eftir að fjölga.
Engin formleg ákæra hefur verið gefin út segir Jäger en vitað sé að að árásarmennirnir hafi verið hluti hóps rúmlega eitt þúsund karla frá Norður-Afríku og Miðausturlöndum sem komu saman á torginu á milli aðalbrautarstöðvarinnar í Köln og dómkirkjunnar.
Af þeim sex Pakistönum sem ráðist var á í gærkvöldi eru tveir á sjúkrahúsi eftir árásina. Um helgina tóku fjölmargir þátt í mótmælum PEGIDA-liða (evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda) í Köln og boðað hefur verið til svipaðra mótmæla í Leipzig síðar í dag.
Í kjölfar árása á konur á nýársnótt í Köln, Hamborg og fleiri borgun hefur Angela Merkel, kanslari Þýskalands, heitið því að herða aðgerðir gegn flóttamönnum sem gerast sekir um saknæmt athæfi. Til að mynda ætlar hún að styðja við bakið á lagabreytingu sem felur í sér að vísa megi flóttafólki úr landi sem brýtur lög.
Af 516 kærum sem lagðar hafa verið fram frá því á nýársnótt eru 40% þeirra vegna kynferðislegs ofbeldis.
Í könnun sem þýska sjónvarpsstöðin RTL gerði sögðust 57% Þjóðverja óttast að glæpatíðni muni aukast í landinu samfara fjölgun hælisleitenda. 40% voru hins vegar ósammála því. Aftur á móti segja 60% aðspurðra að álit þeirra á útlendingum hafi ekki breyst en 37% segjast vera gagnrýnni og neikvæðari í garð þeirra sem eru nýkomnir til landsins.
Dómsmálaráðherra Þýskalands, Heiko Maas, segist telja að ofbeldið hafi verið skipulagt í Köln. Vísar hann til þess mikla fjölda sem tók þátt. „Það getur enginn reynt að segja mér að þetta hafi ekki verið skipulagt,“ segir Maas.