Ráðist var á hóp fólks frá Pakistan og Sýrlandi seint í gærkvöldi í þýsku borginni Köln. Talið er að árásarmennirnir hafi verið um tuttugu og beittu þeir harkalegu ofbeldi. Mikið reiði ríkir í landinu eftir að ráðist var á fjölda kvenna á nýársnótt. Fórnarlömbin eiga það sameiginlegt að vera förufólk.
Fréttir hafa að undanförnu borist frá ýmsum borgum í Evrópu um árásir á konur á nýársnótt og þar á meðal kynferðisofbeldi. Ekki síst í þýsku borginni Köln þar sem á fjórða hundrað kæra hafa verið lagðar fram.
Gerendurnir munu mestmegnis vera karlmenn af arabískum og norðurafrískum uppruna. Meirihluti grunaðra hefur stöðu hælisleitenda í Þýskalandi eða dvelst með ólögmætum hætti í landinu.
Lögregla upplýsti í morgun að hópurinn hefði ráðist á sex Pakistana og þurftu tveir af þeim að leggjast inn á sjúkrahús. Því næst réðust fimm manns á tæplega fertugan mann frá Sýrlandi.