Lögreglan í Stokkhólmi er sökuð um að hafa leynt upplýsingum um fjölmargar kynferðislegar árásir á hendur ungum stúlkum á einni helstu ungmennahátíð borgarinnar.
Fjallað er um málið í sænskum og norskum fjölmiðlum í dag en um var ræða hátíðina We are Sthlm bæði árið 2014 og 2015. Sautján ára gömul stúlka sem var á hátíðinni lýsir því í viðtali við Aftonbladet hvernig mennirnir hafi káfað á henni, brjóstum hennar og rassi.
Fyrst var fjallað um málið í Dagens Nyheter en þar kemur fram að í minnisblaði lögreglunnar frá því í fyrrasumar, áður en hátíðin var haldin, að er varað við vandræðum sem komið höfðu upp árið á undan. Þar segir að upp hafi komið vandamál með unga menn sem hafi nuddað sér upp við ungar stúlkur á hátíðinni. Þrátt fyrir þetta sagði lögreglan eftir þá hátíð og eins í fyrra að allt hefði verið vel fram.
Samkvæmt heimildum DN voru árásarmennirnir í flestum tilvikum ungir karlar sem höfðu komið til Svíþjóðar sem flóttamenn án þess að vera í fylgd með foreldrum.
Fimmtán ára gömul stúlka lýsir því í viðtali við DN að þetta hafi verið hræðilegt og fáir líkamshlutar sloppið frá káfinu.
Ókeypis aðgangur er á We are Sthlm-hátíðina en flestir gestanna eru 12-17 ára gamlir. Uppákomur eru víðsvegar um miðborg Stokkhólms, þar á meðal í Kungsträdgården en garðurinn er skammt frá konungshöllinni.
Í fyrra komu margir innlendir sem erlendir listamenn fram, þar á meðal sænska söngkonan Zara Larsson.