Er skotvopnið fundið?

Olof Palme, var skotinn í bakið af stuttu færi þann …
Olof Palme, var skotinn í bakið af stuttu færi þann 28. febrúar 1986 á Sveavägen í Stokkhólmi. AP

Ný uppgötvun tengd morði Olof Palme, fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, gæti leitt til frekari vísbendinga um hver morðinginn var. Frá þessu greinir í sænska miðlinum Expressen en í febrúar eru 30 ár liðin frá dauða Palme.

Byssukúla sem afbrotafræðingurinn og glæpasagnahöfundurinn Leif GW Persson fékk senda frá nafnlausum aðila árið 2013 er sögð afar lík kúlunni sem notuð var til að myrða Palme. Kúlan er af gerðinni 357 Magnum Winchester Western metal piercing og er ekki af sömu tegund og kúlan sem Palme var myrtur með. Samkvæmt Persson segja opinberir sérfræðingar hinsvegar mikil líkindi með rákum á kúlunum tveimur sem geti bent til þess að þeim hafi verið skotið úr sama vopni.

Hundruðir skotvopna hafa verið prófuð í gegnum árin með það í huga að finna byssuna sem varð Palme að bana en engar kúlur hafa hingað til gefið jafn líkar niðurstöður og sú sem Persson fékk senda.

Persson skrifar sjálfur um framgang málsins í Expressen en talsvert hafði verið fjallað um tilraunir hans til að komast í samband við þann sem sendi kúluna. Í desember 2015 bar leit hans árangur eftir að hann hafði lofað fundarlaunum.

Skammbyssan er nú í vörslu Réttarvísinda-miðstöðvar Svíþjóðar og segir Persson niðurstöður úr prófunum væntanlegar í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert