Ráðhúsbjöllurnar glymja Changes

Bjöllurnar í ráðhúsi Osló munu spila lagið Changes á hverju kvöldi fram til loka maí til minningar um breska tónlistarmanninn David Bowie, sem lést á sunnudag.

„Okkur bárust svo margar áskoranir og það var svo mikill samhljómur um málið að við bara ákváðum að slá til. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá fór ekki einu sinni fram umræða um þetta,“ segir hringjarinn Laura Marie Rueslatten Olseng.

Um 70 manns söfnuðust saman í kuldanum við ráðhúsið kl. 19 að staðartíma til að hlusta á bjöllurnar glymja eitt frægasta lag Bowie í fyrsta sinn.

Bjöllurnar í ráðhústurninum marka tímann með því að spila ólíka tónlist á heila tímanum. Þær hafa m.a. verið látnar spila verk eftir Grieg, Vivaldi og Satie, en einnig nútímaverk á borð við Imagine eftir John Lennon.

Changes er ekki eina nýja viðbótin við lagalistann, en þar er einnig að finna verk úr smiðju Motorhead, sem var bætt við í kjölfar andláts Ian „Lemmy“ Kilmister í desember sl.

Að sögn Olseng varð Changes fyrir valinu þar sem það þykir henta vélinni sem knýr klukknahljóminn. „Og þetta er lag sem kom út fyrir mörgum árum og hefur sérstaka þýðingu í huga margra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka