Sjónvarpsmaðurinn og þáttastjórnandinn Charlie Rose átti nýverið samtal við bandaríska leikarann Sean Penn eftir að sá hitti mexíkóska eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman, en greint er frá þessu á heimasíðu tímaritsins Rolling Stone.
Rose kom fram í þættinum This Morning á CBS vestanhafs þar sem fjallað var um viðtal hans við Penn. Verður það sýnt næstkomandi sunnudag í þættinum 60 Minutes sem og í þætti hans á PBS á mánudag.
Fram hefur komið að Sean Penn hafi tekið viðtal við El Chapo á leynilegum stað í regnskógum Mexíkó stuttu eftir að hann braust út úr öryggisfangelsinu Altiplano. Lögreglumenn hafa nú handtekið eiturlyfjabaróninn á nýjan leik og segja yfirvöld í Mexíkó að viðtal Penn við El Chapo hafi komið þeim á sporið. Þessu neitar Penn.
„Sú saga er nú uppi að fundur minn og minna samstarfsmanna við El Chapo hafi, líkt og saksóknari í Mexíkó heldur fram, reynst mikilvægur liður við handtöku hans. Við hittum hann mörgum vikum áður á stað sem er hvergi nærri þeim stað sem handtakan fór fram,“ segir Penn í áðurnefndu viðtali við Charlie Rose.
Að sögn Penn eru stjórnvöld í Mexíkó augljóslega „mjög niðurlægð“ í ljósi þess að einhver annar en þau hafi getað sett sig í samband við hinn mjög svo eftirlýsta barón. „Enginn fann hann á undan þeim. Við erum ekki klárari en fíkniefnalögreglan eða leyniþjónusta Mexíkó. Við höfðum tengilið sem gat orðið okkur úti um heimboð.“
Heldur leikarinn því nú fram að með yfirlýsingu sinni séu stjórnvöld í Mexíkó viljandi að stofna lífi hans í hættu. Spurður hvort hann óttist um líf sitt vegna þessa kveður hann hins vegar nei við.
Brot úr viðtali Charlie Rose við Sean Penn má nálgast hér.