Saga Steven Avery sem sat saklaus í fangelsi í átján ár og var síðan sakfelldur fyrir morð á ungri konu hefur fangað athygli sjónvarpsáhorfenda um allan heim í Netflix-þáttaröðinni „Making a Murderer“. Óháð sekt eða sakleysi hins meinta morðingja vekja þættirnir spurningar um bandarískt réttarkerfi.
„Making a Murderer“ hefur vakið gríðarlega athygli eftir að þáttaröðin var tekin til sýninga hjá Netflix í desember. Mál Avery er með miklum endemum og varðar morð, kynferðisofbeldi, spillingu og vanhæfni lögreglu og lögmanna. Þættirnir koma einnig fram á tíma þegar mikið vantraust ríkir í garð lögreglu í Bandaríkjunum vegna fjölda atvika þar sem lögreglumenn hafa skotið óvopnaða borgara.
Hér á eftir fer samantekt á málum Stevens Avery sem fjallað er um í þáttaröðinni og hvað hefur gerst í málum hans eftir að hún kom út. Þeim sem vilja ekki vita um framvindu málsins er ráðlagt að bíða með lestur greinarinnar þar til þeir hafa lokið við að horfa á þættina.
Ófarir Stevens Avery hófust árið 1985 þegar hann var handtekinn og sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar og manndráps á konu í Manitowoc-sýslu í Wisconsin í Bandaríkjunum. Avery var þá 23 ára gamall fjölskyldufaðir en hafði áður afplánað fangelsisdóma fyrir tiltölulega minniháttar brot.
Fulltrúar sýslumannsins í Manitowoc voru hins vegar frá upphafi vissir um að Avery væri sá seki þrátt fyrir að öll fjölskylda hans hefði borið vitni um að hann hefði verið með þeim þegar árásin var framin. Þá var annar maður með feril kynferðisbrota á bakinu ekki rannsakaður vegna málsins en lögregla í sýslunni hafði haft eftirlit með honum dagana í kringum árásina. Daginn sem árásin átti sér stað var sá maður þó eftirlitslaus.
Það var ekki fyrr en 18 árum síðar, árið 2003, sem Avery var sleppt úr fangelsi. Þá hafði DNA-tæknin þróast nægilega mikið til að hægt væri að sanna sakleysi hans sem hann hafði staðfastlega haldið fram alla tíð.
Avery hóf þá undirbúning að fleiri milljón dollara málsókn gegn sýslunni og sýslumannsembættinu fyrir það réttarmorð sem var framið gegn honum og höfðu nokkrir fulltrúar sýslumannsins verið kallaðir til skýrslutöku vegna einkamálsins árið 2005.
Aðeins örfáum vikum eða dögum eftir að fulltrúarnir komu til skýrslutöku í einkamálinu hvarf ung kona, Teresa Halbach, í Manitowoc. Nokkrum dögum síðar var Steven Avery handtekinn, grunaður um að hafa myrt hana. Halbach var ljósmyndari fyrir bílatímarit og hafði tekið myndir af bíl fyrir Avery daginn sem síðast spurðist til hennar.
Lögreglan og saksóknari bentu á að jepplingur Halbach hefði fundist á landareign Avery-fjölskyldunnar og blóð úr Steven í honum. Síðar fannst varalykill að bílnum í húsvagni hans, bein úr Halbach í brunagryfju fyrir aftan vagninn og byssukúla með erfðaefni Halbach í bílskúr hans. Þá tefldi saksóknari fram þá 16 ára gömlum systursyni Avery sem átti að hafa játað að hafa hjálpað frænda sínum að nauðga og myrða Halbach á hrottalegan hátt.
Sönnunargögnin virtust því borðleggjandi um sekt Avery sem var útmálaður sem kaldrifjað skrímsli af saksóknaranum og í fjölmiðlum.
Heimildamyndagerðarmennirnir, sem tóku upp myndefnið í „Making a Murderer“ á tíu ára tímabili, draga hins vegar upp talsvert aðra mynd af atburðunum og benda á þýðingu fyrra sakamáls Avery fyrir Halbach-morðrannsóknina.
Kenning þeirra, sem verjendur Avery færðu rök fyrir í málsvörn hans, er sú að yfirvöld og lögreglumenn í Manitowoc hafi verið svo argir yfir hneisunni sem lausn Avery árið 2003 var fyrir þá og hræddir vegna einkamálsins sem hann hafði höfðað að nokkrir þeirra hafi hreinlega komið fyrir sönnunargögnum til þess að fá Avery sakfelldan.
Þrátt fyrir að yfirvöld í Manitowoc-sýslu hafi lýst því yfir við upphaf morðrannsóknarinnar að fulltrúar þeirra ætluðu að halda sig til hlés vegna hagsmunaárekstra af völdum einkamáls Avery gegn þeim og lögregla og saksóknari úr nærliggjandi sýslu færi með stjórn hennar varð raunin önnur.
Þannig var það Lenk liðsforingi, einn lögreglufulltrúanna sem hafði skömmu áður gefið skýrslu í einkamáli Avery vegna mögulegs misferlis, sem fann bíllykilinn í svefnherbergi í húsvagni hans eftir ítrekaðar leitir þar dagana á undan sem höfðu engu skilað. Lykillinn birtist allt í einu á áberandi stað fyrir allra augum. Þá fannst aðeins erfðaefni Avery á lyklinum en ekki úr Halbach sem benti til þess að hann hefði verið hreinsaður.
Ekkert erfðaefni úr Halbach fannst, hvorki á heimili Avery né í bílskúr, þar sem ákæruvaldið hélt því fram að hann hefði nauðgað, misþyrmt og myrt konuna og engin merki voru um að reynt hefði verið að hreinsa burt sönnunargögn. Eina lífsýnið úr Halbach sem fannst var á byssukúluhylki sem fannst í bílskúrnum löngu eftir að upphaflegu húsleitirnar höfðu farið fram. Sami lögreglufulltrúi hafði einnig farið þar um við húsleitirnar.
Blóðdropar úr Avery fundust á bíl Halbach en verjendurnir vefengdu sönnunargildi þeirra. Gögn málsins sýndu að Lenk hafði verið við bílinn daginn sem hann fannst og í ljós kom að hann hafði vitneskju um blóðsýni úr Avery sem geymt var á skrifstofu Manitowoc-skýrslu frá því í fyrra sakamálinu. Þegar verjendurnir létu skoða sýnið kom í ljós að umbúðir þess höfðu verið rofnar og nálarfar var á hettu tilraunaglassins sem blóðið var geymt í.
Bein úr Halbach fundust einnig annars staðar á landareign Avery-fjölskyldunnar og benti ýmislegt til þess að lík hennar hefði ekki verið brennt fyrir aftan hús Stevens eins og saksóknarinn og lögregla hélt fram heldur hafi líkamsleifarnar verið færðar.
Framburður hins sextán ára gamla systursonar Avery, Brendan Dassey, var aldrei lagður fram í málinu gegn honum þrátt fyrir að saksóknarar hafi áður blásið til blaðamannafundar með grafískum lýsingum á því hvernig Avery hefði skipað Dassey að taka þátt í að nauðga og myrða ungu konuna.
Játning Dassey virtist enda þvinguð upp úr honum af lögreglumönnum sem notfærðu sé misþroska hans. Dassey, sem var talinn á mörkum þess að vera greindarskertur, var haldið tímunum saman án lögmanns og spurður leiðandi spurninga þar til hann sagði lögreglumönnunum það sem þeir vildu heyra. Myndbandsupptökur af skýrslutökunum bera með sér af drengurinn hafi ekki haft neinn skilning á þýðingu þess sem hann hafði gengist við.
Hans eigin lögmaður reyndi að fá hann til að játa aðild að nauðgun og morði á Halbach og áleit það hlutverk sitt að hjálpa saksóknurum með málatilbúnað sinn gegn Avery. Hann leyfði lögreglumönnum meðal annars að yfirheyra Dassey án þess að vera viðstaddur sjálfur. Á endanum var unglingnum fenginn nýr lögmaður.
Þrátt fyrir að hafa dregið „játninguna“ til baka fyrir dómi var Dassey, líkt og Avery, sakfelldur fyrir að hafa myrt Teresu Halbach árið 2007. Það eina sem tengdi hann við dauða hennar var hans eigin yfirlýsing sem lögreglumennirnir þvinguðu upp úr honum.
Avery var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn en Dassey á möguleika á reynslulausn árið 2048. Öllum tilraunum þeirra frænda til að áfrýja málum sínum hefur verið hafnað eða vísað frá áfrýjunardómstólum og hæstarétti Wisconsin.
Öll gögn ákæruvaldsins gegn Avery koma þó ekki fram í myndinni. Þannig vildi Ken Kratz, sérstaki saksóknarinn í málinu gegn Avery, að Netflix birti sérstakan fyrirvara á undan þáttunum um að þeir væru eingöngu út frá sjónarhóli sakborningsins og unnir í þágu málsvarnar hans. Hann telur líka að of lítið hafi verið gert úr fyrri afbrotum Avery, meðal annars dýraníðsmáli þar sem hann kveikti í kettinum sínum.
Kratz bendir á í tölvupósti til The Wrap að ekki komi fram í myndinni að svitadropar Avery hafi fundist undir vélarhlíf bíls Halbach, byssukúlan sem fannst í bílskúr hans hafi komið úr riffli sem hann átti og, daginn sem Halbach hvarf hafi Avery hringt þrisvar í síma hennar, þar af tvisvar úr leyninúmeri og hann hafi beðið tímaritið um hana sérstaklega.
Á móti er hins vegar bent að sekt eða sakleysi Avery í morðmálinu sé í raun aukaatriði. Það sé í raun réttarkerfið sjálft sem sé skúrkurinn í þáttunum. Lögregla og saksóknarar óðu áfram með málið gegn Avery með vafasömum vinnubrögðum á mörgum stigum málsins þrátt fyrir skynsamlegar efasemdir um að hann væri í raun sekur.
Vandamálið sé kerfislægt þar sem lögregla og saksóknarar séu undir þrýstingi að ná sakfellingum frekar en að ná fram réttlæti og lítið sem ekkert eftirlit sé með störfum þeirra. German Lopez, blaðamaður Vox, bendir á að fjöldi mála komi upp ár hvert þar sem fólk sé dæmt saklaust eða verði fyrir annars konar misbeitingu valds í bandaríska réttarkerfinu.
Enn þann dag í dag, tæpum níu árum síðar, sitja þeir Avery og Dassey í fangelsi. Avery hefur nú varið um þrjátíu af 53 árum sínum á jörðinni í fangelsi, að minnsta kosti átján þeirra að ósekju. Þar munu þeir væntanlega dúsa þar til einhver sem veit meira stígur fram eða framþróun í tækni gerir mögulegt að sanna að lögregla hafi komið blóði úr Avery fyrir á vettvanginum, ef það er í raun það sem gerðist.
Meðferðin á Avery hefur vakið heitar tilfinningar hjá þeim sem hafa horft á þáttaröðin og var nokkrum undirskriftasöfnunum um náðun hans og endurupptöku sakamálsins hrundið af stað í kjölfar sýninga hennar. Þannig þurfti Hvíta húsið meðal annars að gefa út yfirlýsingu um að það væri ekki á valdi Baracks Obama forseta að náða Avery þar sem hann hafi ekki verið sakfelldur fyrir alríkisglæp. Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, hefur þegar lýst því yfir að hann hafi ekki í hyggju að náða Avery.
Eftir að þættirnir voru sýndir vestanhafs fékk Avery nýjan lögmann frá þekktri lögmannstofu í Chicago. Lögmaðurinn hefur sagt að ný gögn hafi fundist sem þeir telja sýna fram á sakleysi hans, án þess þó að færa frekari rök fyrir því.
Mál Avery hefur legið þungt á fyrrverandi verjendum hans. Jerry Buting, annar þeirra, segir við The Guardian að enn þann dag í dag eigi hann stundum erfitt með að festa svefn vegna þess. Lengi eftir að réttarhöldunum lauk hafi hann átt erfitt með að hugsa um önnur mál.
Kollegi hans, Dean Strang, tekur í sama streng og segir að verulegur, raunverulegur og skynsamlegur vafi leiki á hvort að réttur maður hafi verið sakfelldur.
„Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilinn þá er stór hluti af mér sem vonar virkilega að Steven Avery sé sekur um þennan glæp. Vegna þess að tilhugsunin um að hann sé saklaus af þessum glæp og að hann sitji aftur í fangelsi fyrir eitthvað sem hann gerði ekki og í þetta skiptið til lífstíðar án minnstu vonar um reynslulausn - ég get ekki sætt mig við það,“ segir Strang í lokaþætti þáttaraðarinnar.