Efast um orð bóksalans

Skjáskot af Gui Minhai í kínverska ríkissjónvarpinu í gær
Skjáskot af Gui Minhai í kínverska ríkissjónvarpinu í gær AFP

Baráttumenn fyrir mannréttindum hafa ekki trú á því að játning bóksala frá Hong Kong, sem hvarf fyrir nokkrum mánuðum en kom fram í sjónvarpi um helgina, sé sannleikanum samkvæmt. Bóksalinn Gui Minhai, sem er sænskur, kom fram í kínverska ríkissjónvarpinu í gær þar sem hann sagðist hafa farið til meginlands Kína til þess að taka á sig ábyrgð fyrir dómi á því að hafa valdið dauða námsmanns í bílslysi fyrir ellefu árum.

Gui er þekktur fyrir að gefa út bækur þar sem stjórnvöld í Kína eru gagnrýnd og er hann einn fimm bóksala hjá sama útgáfufyrirtæki í Hong Kong sem hafa horfið að undanförnu.

Bóksalinn greindi frá broti sínu grátandi í gær en Gui segist hafa flúið meginlandið eftir að hafa verið dæmdur fyrir glæpinn á sínum tíma. Samkvæmt fréttinni fékk hann tveggja ára skilorðsbundinn dóm. 

Framkvæmdastjóri Amnesty International í austurhluta Asíu, Nicholas Bequelin, segir að játning Gui veki fleiri spurningar en hún svarar. „Útfrá lagalegu sjónarhorni þá er myndskeiðið einskins virði,“ segir hann í viðtali við AFP fréttastofuna. 

„Hvar er hann? Undir hvaða yfirvöld heyrir hann? Við hvaða kringumstæður veitti hann viðtalið? Við getum ekki útilokað að hann hafi gefið yfirlýsingu sína tilneyddur,“ segir Bequelin.

Leiðtogi Hong Kong, Leung Chun-ying, hefur ekki viljað tjá sig um mál Guis við fjölmiðla en hann hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum vegna hvarfs bóksalanna.

„Mál Gui Minhai hefur ekki verið tilkynnt til lögreglunnar í Hong Kong né heldur til ríkisstjórnar Hong Kong,“ sagði hann við fréttamenn í dag.

Aðstoðarfjármálaráðherra Svíþjóðar, Per Bolund, er staddur í Hong Kong þar sem hann ávarpar fjármálaráðstefnu, segir að sænsk stjórnvöld hafi áhyggjur af þróun mála og hafi óskað eftir frekari upplýsingum frá yfirvöldum á meginlandi Kína. 

Bóksalaráðgátan tekur nýja stefnu

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert