Vilja fræða flóttadrengi um jafnrétti

AFP

Sænsk samtök sem annast ráðgjöf og kennslu varðandi kynlíf vilja seta af stað kennslu fyrir unga stráka úr hópi hælisleitenda sem koma til landsins. Þar verði þeir meðal annars fræddir um réttindi samkynhneigðra og jafnrétti kynjanna.

Þetta kemur fram í aðsendri grein sem fulltrúar samtakanna RFSU skrifa í Svenska Dagbladet í gær. Stjórnarformaður RFSU, Kristina Ljungros, og framkvæmdastjóri, Maria Andersson, segja í greininni að það sé bráð þörf fyrir slíka fræðslu. Má þar nefna fræðslu um kynsjúkdóma, smokka, réttindi til þess að láta eyða fóstri, jafnrétti kynjanna og réttindi samkynhneigðra og transfólks (LGBTQ).

Greinin er birt í kjölfar umræðu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum í Köln á nýársnótt og sumarhátíðinni We are Sthlm í Stokkhólmi. Samkvæmt fréttum sænskra fjölmiðla voru brotamennirnir í Stokkhólmi í flestum tilvikum flóttamenn og unglingar sem hafa komið einir til Svíþjóðar.

Þær segja í greininni að margir þessara ungu manna komi úr samfélögum þar sem önnur gildi ríkja heldur en almennt gerist í Svíþjóð. Alls komu rúmlega 36 þúsund flóttabörn til Svíþjóðar án foreldra í fyrra. Tvö af hverjum þremur koma frá Afganistan.

Kynferðislegt ofbeldi hvergi liðið

Omid Mahmoudi, sem starfar með samtökunum Ensamkommandes Förbund, sem aðstoða unga hælisleitendur sem koma til Svíþjóðar án þess að vera í fylgd með forráðamönnum, gagnrýnir tilboð RFSU. Hann segir að það sé satt sem samtökin segi um ólíka menningu varðandi völd karla en það sé enginn menningarmunur þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi. Slíkt ofbeldi er óásættanlegt í öllum menningarheimum.

Það þurfi ekki meiri kynfræðslu og það sé fáránlegt að setja öll börn sem ekki eru í fylgd forráðamanna undir sama hatt. Þau komi frá ólíkum löndum og ólíkum menningarheimum. Einhver þeirra hafa fengið menntun en önnur hafa alist upp á götunni og aldrei notið þeirra réttinda að stunda nám.

Hátt hlutfall sænskra kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. En alls hafa 1,8% kvenna og 0,3% karla orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hlutfallið er enn hærra á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert