Lögreglan biður fólk að halda ró sinni

AFP

Lögreglan í Berlín segir að ekkert sé hæft í ásökunum þýsk rússneskrar unglingsstúlku sem segir að henni hafi verið rænt og nauðgað af útlendingum. Fréttir af árásinni vöktu hörð viðbrögð meðal öfgamanna og rússneskra fjölmiðla en svo virðist sem stúlkunni hafi hvorki verið rænt né nauðgað.

Lögreglan í Berlín biður fólk um að halda ró sinni á samfélagsmiðlum eftir að lögreglan var sökuð um að hylma glæp af öfga hægrimönnum og rússneskum fjölmiðlum.

Stúlkan, sem er þrettán ára gömul, hvarf í Berlín 11. janúar á leið í skólann. Þegar hún skilaði sér heim greindi hún frá því að henni hafi verið rænt og kom hún í fylgd foreldra sinna á lögreglustöð í borginni þar sem þau lögðu fram skýrslu. Hún sagði lögreglu að þrír menn hefðu rænt henni á Mahlensdorf lestarstöðinni í austurhluta borgarinnar. 

Hún lýsti mönnunum á þann veg að þeir kæmu frá suðrænum löndum og töluðu bjagaða þýsku. Þeir hafi haft hana á brott með sér og farið með hana í íbúð þar sem þeir nauðguðu henni og börðu, samkvæmt fréttum þýskra fjölmiðla. 

Mikil reiði braust út á samfélagsmiðlum og hefur lögregla verið sökuð um að ætlað að þegja um ofbeldið gagnvart stúlkunni. Var þar vísað til lögreglunnar í Köln sem reyndi að gera lítið úr ofbeldinu í borginni á nýársnótt í upphafi. 

Lögreglan gaf út yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að rannsókn hafi leitt í ljós að stúlkunni hafi hvorki verið rænt né nauðgað. „Við biðlum til ykkar um að fjalla varlega um þetta mál á samfélagsmiðlum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Facebook.

En öfgamenn og rússneskir fjölmiðlar segja að lögreglan ljúgi og að hún sé að breiða yfir glæpinn. 

Nýnasistar, NPD, hafa nýtt sér málið í baráttunni gegn flóttamönnum og árásum þeirra á þá. „Ég er farinn að halda að við þurfum borgaralega lögreglu þar sem hvorki stjórnmálamenn og lögregla eru að hjálpa eða stendur með fólki,“ skrifar einn félagi í NPD á vef samtakanna. 

Rússneski ríkisfjölmiðillinn Pervyi Kanal hefur eftir frænda unglingsstúlkunnar að lögreglan sé að hylma yfir glæpinn. „Þeir þrýstu á hana að segja að hún hafi viljað þetta og hún hafi táldregið blessaða drengina.

Rússneska sjónvarpsstöðin NTV bætir um betur og segir að íbúum í Þýskalandi og Svíþjóð sé nauðgað reglulega af flóttamönnum og nokkur slík kynferðisofbeldismál hafi komið upp en bæði stjórnvöld og lögregla leyni slíkum staðreyndum og hefji ekki opinbera rannsókn á þeim.

Facebooksíða lögreglunnar í Berlín

Berliner Zeitung

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert