Palin handtekinn fyrir heimilisofbeldi

Track Palin elsti sonur Sarah Palin
Track Palin elsti sonur Sarah Palin AFP

Sonur Söruh Palin var handtekinn fyrir heimilisofbeldi eftir að hafa lent í átökum við unnustu sína en hann var vopnaður riffli. Dómskjölin voru birt í gær á sama degi og móðir hans tilkynnti stuðning sinn og aðdáun á Donald Trump, sem sækist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins. 

Track Palin, sem er 26 ára fyrrverandi hermaður í Írak, var drukkinn á heimili móður sinnar á mánudagskvöldið er hann lenti í átökum við unnustu sína og hótaði hann því að skjóta sig með rifflinum.

Sarah Palin var varaforsetaefni repúblikana í forsetakosningunum árið 2008 en hún var ríkisstjóri í Alaska og mikill stuðningsmaður vopnaeignar Bandaríkjamanna. Track er elsti sonur hennar en þau búa enn í Alaska. Unnusta hans hringdi eftir aðstoð neyðarlínunnar og sagði að hann hefði slegið hana í andlitið og að hann væri vopnaður skotvopni.

Í dómskjölum er haft eftir lögreglu að Track Palin hafi verið ósamvinnuþýður, látið dólgslega og svarað út í hött. Hann var með meiðsli á hægra auga og angaði af áfengi. Palin var fluttur á brott handjárnaður í lögreglubíl. Fljótlega eftir að farið var með hann á brott fannst unnustan en hún hafði náð að fela sig undir rúmi á efri hæð hússins. Hún var í miklu ójafnvægi og með áverka í andliti.

Track Palin sagði að þau hefðu rifist nánast allt kvöldið þar sem hann grunaði að hún hefði verið í sambandi við fyrrverandi kærasta. Hún segir að hann hafi bæði slegið sig í andlitið og eins náð að sparka í sig þannig að hún hafi dottið. Hann henti síma hennar eftir bílastæðinu við húsið og þegar hún endurheimti hann beindi hann byssu að henni og öskraði: „Heldur þú að ég geri það ekki?“

Sarah Palin og Donald Trump í gærkvöldi
Sarah Palin og Donald Trump í gærkvöldi AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert