Alþjóðlegi glæpadómstóllinn í Haag greindi í dag frá því að fyrrum herforinginn Dominic Ongwen, hafi verið ákærður fyrir 70 stríðsglæpi. Ongwen var herforingi í Andspyrnuher Drottins og á hann m.a. að hafa haldið fólki í kynlífsánauð og safnað liði barnahermanna.
Ongwen var handtekinn í janúar á síðasta ári. Hann var einn helsti foringi Andspyrnuhersins í tíu ár.
Saksóknarar í málinu halda því fram að á árunum 2002 til 2005 hafi Ongwen borið „mikla ábyrgð“ á „hræðilegum árásum“ í norður Úganda þar sem komið var fram við almenna borgara af Andspyrnuhernum sem „óvini“.
„Þetta var ekki bara borgarastyrjöld milli fólks í einkennisbúningum,“ sagði saksóknarinn Benjamin Gumpert í dag. „Andspyrnuher Drottins réðst á venjulega úganska borgara sem vildu ekkert annað en að lifa lífum sínum.“
Ongwen ávarpaði dómstólinn og sagði það „tímasóun“ að lesa upp allar ákærurnar. Ongwen sem er þekktur undir nafninu „Hvíti maurinn“ hlustaði einbeittur er Gumpert sýndi myndband af líkum í fjöldagröf. Sagði Gumpert jafnframt að dómstóllinn myndi næstu daga fá að sjá frekari sannanir á „grimmd“ árásanna.
Ongwen er fæddur árið 1975 og var sjálfur barnahermaður. Hann var eitt sinn helsti aðstoðarmaður Joseph Kony, leiðtoga hersins, sem er enn á flótta undan réttvísinni.
Andspyrnuher Drottins er sakaður um að hafa slátrað rúmlega 100,000 manns og rænt 60.000 börnum í blóðugri uppreisn sinni gegn yfirvöldum sem hófst árið 1986.
Það er í höndum þriggja dómara að ákveða hvort að réttað verði yfir Ongwen en næstu fimm daga munu saksóknarar leggja fram sönnunargögn gegn honum. Þeir leggja mestu áhersluna á fjórar árásir á flóttamannabúðir fólks sem neyddust til að flýja heimili sín vegna Andspyrnuhersins.
Rúmlega 130 manns, þar af mörg börn og smábörn, létust í árásunum og tugum barna var rænt.
Andspyrnuher Drottins skaut fyrst upp kollinum árið 1986 en þá sögðust þeir berjast í nafni Acholi þjóðarhópsins gegn ríkisstjórn þáverandi forseta, Yoweri Mueveni.
En síðustu ár hefur herinn fært sig milli landa og hafa m.a. gert árásir í suður Súdan og Kongó. Einnig réðust þeir á svæði í Miðafríkulýðveldinu í mars 2008.
Ongwen var handtekinn fyrir ári síðan eftir að hann gaf sig óvænt fram við bandarískar öryggissveitir í Miðafríkulýðveldinu.