Maður sem var dæmdur sekur um að hafa myrt breska konu í Ítalíu árið 2007 heldur því fram í nýju viðtali að hin bandaríska Amanda Knox, sem var sýknuð af morðinu í apríl á síðasta ári eftir fjögur ár í fangelsi, hafi verið inni í íbúð konunnar þegar hún var myrt.
Rudy Guede, sem var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Meredith Kercher, segist vera 101% viss um að Knox hafi komið í íbúð fórnarlambsins kvöldið sem hún var myrt.
Guede hefur alltaf haldið því fram að hann hefði verið inn á baðherbergi íbúðar Kercher þegar hún var myrt. Hann segir að hann hafi séð Knox og annan mann í íbúðinni þegar hann heyrði Kercher öskra.
Réttað var fjórum sinnum yfir Knox og þáverandi kærasta hennar Rafaelle Sollecito fyrir morðið á Kercher. Þau sátu í fangelsi í fjögur ár áður en þau voru sýknuð.
Saksóknarar héldu því fram að parið hefði farið heim til Kercher og drepið hana í einhverju sem byrjaði sem kynlífsleikur. Knox hefur þó alltaf haldið því fram að hún hefði ekki farið heim til Kercher þetta kvöld. Guede var dæmdur sekur eftir að DNA úr honum fannst á líkama Kercher og fótspor hans í blóði hennar. Hann flúði til Þýskalands nokkrum dögum eftir að Kercher lést.
Í nýju viðtali sem var birt á ítölsku sjónvarpsstöðinni RAI 3 útskýrir Guede hvernig hann og Kercher hefðu verið að kyssast þegar hann þurfti skyndilega að fara á salernið. „Á meðan ég var að því heyrði ég dyrabjölluna hringja,“ sagði Guede. „Meredith opnaði hurðina og ég heyrði rödd Amanda Knox. Þær byrjuð að rífast. Fyrr hafði Meredith kvartaði yfir Knox og sagt hana hafa stolið af sér peningum þannig að ég hafði ekki miklar áhyggjur og var áfram inni á salerninu.“
Guede var beðinn um að staðfesta að Knox hefði verið inni í íbúðinni. „Já ég þekkti röddina. Ég er 101% viss.“
Hann sagðist hafa verið kyrr inni á baðherberginu þar til hann heyrði öskur sem var það hátt að hann heyrði það þrátt fyrir að hafa verið að hlusta á tónlist. „Þegar ég kom út voru öll ljósin slökkt fyrir utan þau sem voru í herbergi Meredith. Ég sá skuggamynd af karlmanni fyrir utan hurðina hennar.“
Að sögn Guede hlupu maðurinn og Knox í burtu þegar þau sáu að einhver annar væri í íbúðinni.