Aflýstu fundi um hernámið af öryggisástæðum

Einn meðlima vopnuðu sveitarinnar ríður um með bandaríska fánanna á …
Einn meðlima vopnuðu sveitarinnar ríður um með bandaríska fánanna á Malheur-náttúruverndarsvæðinu. AFP

Dómari í bænum Burns í Oregon sem ætlaði að halda bæjarfund vegna hernáms vopnaðrar sveitar manna á náttúruverndarsvæði í nágrenninu í dag hefur þurft að aflýsa honum vegna ótta um öryggi fundargesta. Hernámið hefur nú staðið yfir í rétt rúmar þrjár vikur.

Vopnaða sveitin hefur haldið Malheur-náttúruverndarsvæðinu frá 2. janúar til þess að þrýsta á alríkisstjórnina um að láta eftir stjórn á svæðinu og frelsa tvo búgarðseigendur sem voru fangelsaðir fyrir að kveikja í alríkislandi. Dómari í Harney-sýslu ætlaði að halda bæjarfund um hernámið en hætti við það þegar að það spurðist að áform væru um mótmæli við fundinn og að einhverjir ætluðu að loka innganginum að félagsmiðstöð eldri borgara þar sem hann átti að fara fram.

Talsmaður sýslunnar sagðist hvorki hafa frekari upplýsingar um að hverju áhyggjur yfirvalda um öryggi beindust né hver hefði haft í hyggju að loka inngangi félagsmiðstöðvarinnar.

Þingmenn Oregon-ríkis hafa undanfarið þrýst á alríkisyfirvöld um að skerast í leikinn og binda enda á hernámið. Yfirvöld hafa hins vegar látið lítið fyrir sér fara fram að þessu enda hafa talsmenn vopnuðu sveitarinnar lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til að beita vopnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert