„Hún var engill“

Lögregla að störfum utan við heimilið.
Lögregla að störfum utan við heimilið. AFP

Óljóst er hvað liggur að baki árás 15 ára hælisleitenda í Svíþjóð á 22 ára starfsmann heimilis fyrir unga hælisleitendur. Drengurinn er grunaður um að hafa stungið konuna með hnífi en hún lét lífið á spítala í gærmorgun.

Frétt mbl.is: „Hryllilegur glæpur“ í Svíþjóð

„Það sem gerðist var hræðilegt. Við höfum ekki upplifað nein vandamál áður,“ sagði starfsmaður heimilisins, Amal Hassan við SVT í gær. „Við hefðum ekki getað séð fyrir að nokkuð myndi gerast.“

Árásin átti sér stað stuttu fyrir klukkan átta um morgun. Samkvæmt Expressen gaf fyrsta símtalið til lögreglu til kynna að árásarmanni með hníf væri haldið föstum af tveimur öðrum. Segir Expressen konuna hafa verið stungna í bakið og að hún hafi verið færð á Sahlgrenska sjúkrahúsið en látist skömmu síðar.

Sjö manns voru færðir til yfirheyrslu og hóf lögregla þegar forrannsókn málsins. Að lokum var drengurinn handtekinn, grunaður um morð en ástæður árásarinnar eru enn óljósar.

„Við erum að skapa okkur mynd af atvikinu en það er ekkert sem við munum ræða þar sem rannsókn málsins stendur yfir,“ sagði Stefan Gustafsson við SVT í gær.

Húsnæðið var rýmt og því lokað vegna rannsóknarinnar. Íbúum heimilisins var komið fyrir í tímabundinni vistun þar sem þeim var boðin áfallahjálp.

Börnin héldu árásarmanninum

Expressen segir ungu konuna sem lést hafa heitið Alexandra Mehzer og verið af líbönskum uppruna. Hún hafði aðeins starfað á heimilinu í fáeina mánuði.

„Við höfum grátið mikið. Hún var svo góð manneskja, hlý og hamingjusöm,“ hefur miðillinn eftir frænku Mehzer. „Hún vildi öllum vel,“ sagði önnur frænka við miðilinn.

„Hún var engill.“

Á heimilinu bjuggu tíu ungir hælisleitendur á aldrinum 14 til 17 ára sem eiga það sameiginlegt að vera í Svíþjóð án fjölskyldu sinnar. Talsmaður lögreglunnar hefur hrósað börnum sem stöðvuðu árásarmanninn og komu í veg fyrir að hann myndi ráðast á fleiri íbúa eða starfsmenn.

„Í skýrslunni um atvikið segir að tveir krakkar hafi haldið honum. Það er mjög gott inngrip. Hefði hann ætlað sér að skaða einhvern annan hafa þeir hindrað það. Það er auðvelt að slasast sjálfur við slíkt inngrip. Við erum mjög þakklát,“ sagði talsmaður lögreglu, Peter Adlersson samkvæmt Expressen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert