Í dag mun danska þingið kjósa um afar umdeilda tillögu þess efnis að ríkið megi gera verðmætar eigur flóttamanna til að standa straum af kostnaði við móttöku þeirra og uppihald.
Tillagan hefur verið harðlega gagnrýnd, bæði í Danmörku og víðar um heim eftir að tilkynnt var um hana fyrr í mánuðinum. BBC segir dönsk yfirvöld halda því fram að þessi stefna setji hælisleitendur á sama pall og atvinnulausa Dani sem þurfa að selja eignir yfir ákveðinni upphæð til að eiga rétt á bótum. Útlit er fyrir að tillagan verði að lögum þar sem hún nýtur víðtæks stuðnings innan ríkisstjórnar flokkanna.
Ríkisstjórnin mun jafnframt kjósa um aðra umdeilda tillögu um frestun fjölskyldusameininga fyrir flóttafólk og innflytjendur til að reyna að letja fólk til að koma til landsins. Danmörk gerir ráð fyrir að taka á móti 20 þúsund hælisleitendum á árinu, samanborið við 15 þúsund á síðasta ári.
Ríkisstjórn landsins segir nýju tillögurnar nauðsynlegar til að hægja á komu flóttafólks.
BBC segir marga hafa borið áætlanir Danmerkur saman við seinni heimstyrjöldina þar sem eignir voru teknar af gyðingum. Innanríkisráðherrann Inger Stoejberg neyddist til að tilkynna að engir munir sem hefðu tilfinningagildi yrðu teknir. Lögin muni ná til reiðufés eða eigna sem eru yfir 10 þúsund danskra króna virði, en upprunalega stóð til að þau næðu til eigna yfir 3.000 króna virði.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur varað við því tillögurnar brjóti gegn Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Slíka gagnrýni hafa ríkisstjórnarflokkarnir hinsvegar hrist af sér og hefur forsætisráðherrann Lars Lokke Rasmussen kallað tillögurnar „Misskildasta frumvarp í sögu Danmerkur.“