Danska þingið hefur samþykkt umdeilt frumvarp sem heimilar yfirvöldum að gera fjármuni og hluti í fórum hælisleitenda upptæka fari verðmæti þeirra yfir 10.000 danskar krónur, jafnvirði um 190.000 kr.
Dönsk stjórnvöld segja að með lögunum verði staða hælisleitenda sambærileg stöðu atvinnulausra í Danmörku, en þeir verða að selja hluta af sínum eigum til að geta farið fram á bætur frá ríkinu.
Minnihlutastjórn Venstre, sem er mið- og hægriflokkur, náði fyrr í þessum mánuði samkomulagi við þrjá borgaralega flokka – Danska þjóðarflokkinn, Bandalag frjálslyndra og Íhaldsflokkinn – og Jafnaðarmannaflokkinn um stuðning við frumvarpið eftir að breytingar voru gerðar á því.
Tíu stjórnmálamenn Venstre – borgarfulltrúar, formenn aðildarfélaga og fyrrverandi þingmenn – gagnrýndu frumvarpið í grein sem var birt í dagblaðinu Berlingske 13. janúar sl. „Þetta snýst ekki aðeins um rétta stefnu eða mannúð, heldur einnig um alþjóðlegt orðspor Danmerkur,“ segja þeir. „Þegar menn einblína á táknrænar aðgerðir frekar en raunveruleg aðalatriði gleyma þeir að stjórnmál snúast um fólk af holdi og blóði.“
Greinarhöfundarnir sögðu að þegar væru í gildi lög sem hægt væri að beita til að krefjast þess að auðugir hælisleitendur sæju sjálfum sér farborða. „Það sem er nýtt...er að yfirvöld fá aukna heimild til að leita í farangri flóttamanna að peningum og verðmætum hlutum.“
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði á blaðamannafundi 12. janúar að frumvarpið umdeilda væri „misskildasta lagafrumvarp í sögu Danmerkur“ og skírskotaði m.a. til þess að heimildinni til að gera eigur flóttafólks upptækar hefur verið líkt við meðferðina á gyðingum í helförinni. Hann neitaði því að brotið væri á mannréttindum hælisleitenda og sagði að í Danmörku væri gengið út frá því að fólk framfleytti sér sjálft ef það gæti, annars fengi það hjálp. „Ef menn leita til sveitarfélags og biðja um peningaaðstoð fá þeir ekkert ef eignir þeirra eru yfir 10.000 [dönskum] krónum. Þess vegna væri það rangt ef hælisleitendur þyrftu ekki að borga neitt sjálfir óháð eignum sínum,“ hafði dagblaðið Jyllands-Posten eftir forsætisráðherranum.
Danir kjósa um eigur flóttamanna
Umdeilt frumvarp nálgast samþykki