Alexandra Mezher, 22 ára kona sem lét lífið eftir að hafa verið stungin með hníf á heimili fyrir unga hælisleitendur í Svíþjóð, var ein á vakt þegar fimmtán ára hælisleitandi réðst á hana. Hún átti aðeins tæpan hálftíma eftir af næturvaktinni en fleiri eru á vakt yfir daginn. Beiðni um aðstoð barst neyðarlínunni kl. 7.46 í gærmorgun.
Samkvæmt heimildum sænska fjölmiðilsins Expressen voru gerðar athugasemdir við mönnun starfsfólks á heimilinu fyrir tæpu ári. Svo virðist sem starfsfólkið hafi verið óánægt með að aðeins einn starfsmaður væri á næturvaktinni og kom þetta einnig til tals á fundi sem haldinn var með starfsfólkinu í gær.
Á heimilinu bjuggu tíu ungir hælisleitendur á aldrinum 14 til 17 ára sem eiga það sameiginlegt að vera í Svíþjóð án fjölskyldu sinnar. Talsmaður lögreglunnar hefur hrósað börnum sem stöðvuðu árásarmanninn og komu í veg fyrir að hann myndi ráðast á fleiri íbúa eða starfsmenn.
„Í skýrslunni um atvikið segir að tveir krakkar hafi haldið honum. Það er mjög gott inngrip. Hefði hann ætlað sér að skaða einhvern annan hafa þeir hindrað það. Það er auðvelt að slasast sjálfur við slíkt inngrip. Við erum mjög þakklát,“ sagði talsmaður lögreglu, Peter Adlersson.
Frétt mbl.is: Börnin héldu árásarmanninum
Frétt mbl.is: „Hryllilegur“ glæpur í Svíþjóð