Forsprakkar hernámsins handteknir

AFP

Bandaríska lögreglan hefur handtekið leiðtoga hóps sem stóð að hernáminu á Mal­heur nátt­úru­vernd­ar­svæðinu í Oregon. Auk Ammon Bundy voru fjórir aðrir handteknir við vegatálma sem lögreglan hafði sett upp. Einn úr hópnum lést er kom til skotbardaga við lögreglu.

Tveir aðgerðarsinnar voru einnig handteknir í gær en hópurinn hefur haldið svæðinu í herkví frá því snemma í janúar. Markmið her­náms­ins er að fá tvo bænd­ur, Dwig­ht Hammond og son hans Steven Hammond lausa úr fang­elsi. Einnig vilja þeir að stjórn­völd af­henti bænd­um lönd sem þeir segja hafa verið stol­in af þeim.

Enn gengur hluti hópsins laus og er þeirra leitað af bandarísku alríkislögreglunni (FBI), samkvæmt frétt BBC.

Þar kemur fram að margir íbúar bæjarins Burns hafi samúð með málstað hópsins en ríkisstjórn landsins er lítt vinsæl meðal íbúa í Harney sýslu. Þeir saka stjórnvöld um að virða ekki líf þeirra á landsbyggðinni.

Í tilkynningu frá FBI kemur fram að Bundy hafi verið handtekinn við vegtálma ásamt bróður sínum Ryan Bundy, Bryan Cavalier, Shawna Cox og Ryan Walen Payne. Auk þess hafi þeir Joseph Donald O'Shaughnessy og Peter Santilli verið handteknir síðar um daginn í Oregon.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert