Loka af náttúruverndarsvæðið

LaVoy Finicum, hernámsmaðurinn sem féll í skotbardaga við lögreglu í …
LaVoy Finicum, hernámsmaðurinn sem féll í skotbardaga við lögreglu í gær. AFP

Yfirvöld hafa komið upp vegartálmum í kringum Malheur-náttúruverndarsvæðið í Oregon og segjast ætla að handtaka hvernig þann sem reynir að fara þangað inn. Fátt bendir þó til þess að þeir hernámsmenn sem eftir eru á svæðinu hafi látið sig hverfa eftir að átta þeirra voru handteknir í gær og einn skotinn til bana.

Tilgangur lokunarinnar er að tryggja betur öryggi fólks og löggæsluaðila, að því er segir í yfirlýsingu frá alríkislögreglunni FBI og ríkislögreglunni í Oregon. Yfirvöld höfðu áður beðið fólk um að yfirgefa náttúruverndarsvæðið án árangurs.

Hernám sveitar vopnaðra manna hefur staðið yfir í um það bil þrjár og hálfa viku en til tíðinda dró í gær þegar lögreglumenn stöðvuðu för nokkurra þeirra á þjóðvegi norður af svæðinu. Þá voru þeir á leið á bæjarfund í bæ í um 160 kílómetra fjarlægð frá Malheur.

Tveir þeirra veittu lögreglu mótþróa svo til skotbardaga kom. Einn hernámsmannanna lét lífið og annar særðist lítillega. Tveir til viðbótar voru handteknir annars staðar. Lögregluyfirvöld hafa ekki greint frekar frá skotbardaganum.

Aðrir þátttakendur í hernáminu sitja sem fastast á svæðinu þrátt fyrir að leiðtogar þeirra hafi verið á meðal þeirra sem voru handteknir í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka