Hernámsmennirnir í Oregon sýndu lögreglu ekki mótþróa þegar þeir voru handteknir á umferðarljósum í gær, fyrir utan tvo. Annar þeirra lést eftir skotbardaga við alríkislögregluna og bróðir forsprakka hópsins særðist en ekki liggur fyrir hver hleypti fyrstu skotunum af.
Samkvæmt heimildum CNN voru meðlimir vopnuðu sveitarinnar sem hafði haldið Malheur-náttúruverndarsvæðinu í Harney-sýslu í Oregon frá 2. janúar handteknir þar sem þeir voru á ferð í tveimur bílum. Tveir menn til viðbótar voru handteknir í bænum Burns og annar í Arizona. Tveir menn neituðu hins vegar að verða við skipunum lögreglumanna um að gefast upp: LaVoy Finicum og Ryan Bundy, bróðir forsprakkans Ammons.
Finicum hafði verið einn herskáasti meðlimur hópsins og hafði hann áður lýst því yfir að hann vildi frekar vera drepinn en handtekinn.
„Svo virðist sem ríkisstjórnin okkar hafi skotið á Bandaríkin. Einn besti föðurlandsvinur frelsisins er fallinn. Hann mun ekki fara hljóðlega inn í eilífðina,“ sagði á Facebook-síðu búgarðs Bundy-fjölskyldunnar eftir handtökurnar.
Alls voru átta manns handteknir og eiga þeir yfir höfði sér ákærur sem tengjast hernáminu, þar á meðal að hafa lagt á ráðin um að stöðva starfsmenn Bandaríkjastjórnar við skyldustörf með valdi, ógnunum eða hótunum.
Ríkisstjórinn í Oregon, Kate Brown, sagði í gærkvöldi að hernámið héldi áfram.
Frétt CNN af handtökunum í Oregon