Flugvirki hjá EgyptAir er nú grunaður um að hafa komið fyrir sprengju um borð rússneskrar farþegaþotu sem sprakk í loft upp í október. 224 létu lífið. Heimildarmenn Reuters halda því fram að flugvirkinn eigi frænda í hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams.
Hingað til hafa egypsk stjórnvöld haldið því fram að ekkert bendi til þess að flugvél Metrojet hafi verið sprengd upp af hryðjuverkamönnum. Yfirmaður hjá EgyptAir neitaði því að einhverjir starfsmanna hans hafi verið handteknir, grunaðir um að tengjast málinu. Talsmaður innanríkisráðuneytisins hafði sömu sögu að segja.
En heimildarmaður Reuters sagði að flugvirkinn hefði verið handtekinn ásamt tveimur flugvallalögreglumönnum og töskubera. Að sögn heimildarmannsins gekk frændi flugvirkjans til liðs við Ríki íslams fyrir um einu og hálfu ári síðan.
Annar heimildarmaður sagði að lögreglumennirnir hefðu verið handteknir fyrir að framkvæma ekki rétta öryggisleit en er möguleiki á því að þeir hafi einfaldlega ekki verið að sinna vinnunni sinni en ekki vitað af sprengjunni.
Eftir að þotan hrapaði lýsti hryðjuverkahópur, sem tengist Ríki íslams, yfir ábyrgð á árásinni. Nettímarit samtakanna birti síðar mynd af gosdós á að hafa verið notuð til að búa til sprengjuna.
Rússar hafa lengið haldið því fram að þotan hafi hrapað vegna sprengju sem var um borð. Egyptar hafa neitað fyrir það og sagt engin sönnunargögn benda til þess.