Tyrkir vara Rússa við

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. AFP

Tyrkir hafa sakað Rússa um að hafa farið inn fyrir lofthelgi þeirra í gær. Hafa þeir varað rússnesk stjórnvöld við því að „sýna óábyrga hegðun.“ Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kemur fram að herþota að gerðinni Su-34, í eigu Rússlandshers hafi farið inn fyrir tyrkneska lofthelgi í gær klukkan 11:46 að staðartíma.

Aðeins eru rúmir tveir mánuðir síðan að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu við landamæri Sýrlands og Tyrklands. Að sögn Tyrkja var þotan skotin niður eftir að hún fór inn fyrir tyrkneska lofthelgi.

Tyrknesk stjórnvöld hafa boðað sendiherra Rússa í landinu í utanríkisráðuneytið til fundar. Þar mun meintu broti Rússa vera harðlega mótmælt. Ekki kom fram í tilkynningu ráðuneytisins hvar þotan á að hafa farið inn fyrir lofthelgi Tyrkja.

Samband þjóðanna tveggja hefur verið slæmt síðan í nóvember og hefur það ekki verið eins slæmt síðan við endalok Kalda stríðsins. Fyrir utan deilurnar vegna atviksins í nóvember, styðja löndin tvö mismunandi hliðar í Sýrlandsstríðinu. Rússar eru helstu stuðningsmenn Sýrlandsstjórnar á meðan Tyrkir segja að helsta leiðin til þess að leysa deiluna í Sýrlandi sé að fá forseta landsins til að stíga frá völdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert