Ástralska ritfangakeðjan Typo komst í hann krappan á dögunum þegar í ljós kom að á hnattlíkani sem keðjan hafði í sölu var Palestína merkt inn á kortið en Ísrael merkt með númeri sem vísaði í neðanmálstexta á líkaninu.
Athugasemdir við kortið komu fyrst fram á Facebook-síðu fyrirtækisins og var það m.a. gagnrýnt fyrir að hafa „þurrkað Ísrael af yfirborði jarðar“. Typo óð beint úr öskunni í eldinn þegar tilkynnt var að hnattlíkönin yrðu tekin úr sölu, en þeirri ákvörðun var harðlega mótmælt af stuðningsmönnum Palestínu.
Að sögn forsvarsmanna Typo er umrætt kort frá alþjóðlegri stofnun og ástæða þess að nafn Ísraels var ekki að finna á því einföld; það komst einfaldlega ekki fyrir.
Einn þeirra sem tjáðu sig um málið benti á að Makedónía væri heldur ekki merkt á kortið og spurði hvaða pólitísku stefnu Typo væri að reka. En fleiri villur er að finna á kortinu, þar sem Kaspíahaf er merkt inn tvisvar og stafsetningarvillu er að finna í nafni Aserbaídsjan.
Stationery chain Typo pulls world globe that names Palestine over Israel https://t.co/JfGH2Cv6pD
— michael safi (@safimichael) February 1, 2016