Stjörnugjöf í skugga sjálfsvígs

Alain Ducasse, guðfaðir frönsku matargerðarlistarinnar, hlaut í dag þriðju Michelin stjörnuna fyrir veitingastað sinn á Plaza Athénée-hótelinu í París. En á sama tíma var annar staður hans, Le Dalí, á le Meurice hótelinu sviptur stjörnu. 

Það var hins vegar lítil gleði í stjörnukynningu Michelin í dag þegar nýr listi yfir stjörnustaði var kynntur því einn gestanna vantaði, Benoît Violier, sem fannst látinn á heimili sínu í gær. Violier, sem var fransk-svissneskur, rak veitingastaðinn Restaurant de l’Hotel de Ville í Crissier, skammt frá Lausanne og var staðurinn valinn sá besti í heimi af La Liste í desember. Staðurinn er með þrjár Michelin stjörnur. 

Sjálfsvíg Violier í gær varpar kastljósinu að álaginu sem helstu matreiðslumenn heimsins búa við. Einn þeirra veitingastaða sem misstu eina stjörnu af þremur í dag er Relais Bernard Loiseau en eigandi staðarins, Bernard Loiseau skaut sig til bana með veiðiriffli árið 2003 eftir að Gault & Millau ákvað að lækka einkunnagjöf staðarins sem er í Bourgogne héraði.

Ekkja Loiseau, Dominique, sagði í dag að hún væri í áfalli yfir ákvörðun Michelin um að fækka stjörnum Relais Bernard Loiseau niður í tvær.

Breski matreiðslumaðurinn Gordon Ramsay varð einnig að bíta í það súra epli að glata stjörnu í dag er veitingahús hans Trianon í Versölum fór niður í eina stjörnu hjá Michelin.

Unnið er að rannsókn á andláti Violiers, sem var 44 ára gamall, en líkt og Loiseau fannst veiðiriffill við hlið hans.

Það voru veitingastaðir á lúxushótelum í París sem voru áberandi í stjörnugjöf Michelin í Frakklandi í dag. Meðal annars fékk veitingastaður Christian Le Squer, Le Cinq, þriðju stjörnuna. En þessir tveir staðir þeirra Ducasse og Squer eru einu tveir staðirnir sem fengu þrjár stjörnur í París í ár.

Framkvæmdastjóri Michelin, Michael Ellis, hrósaði Ducasse í hástert í morgun, einkum og sér í lagi fyrir náttúrulega eldamennsku. Að sögn Ellis er Christian Le Squer raunverulegur snillingur og hver diskur hans listavert og gott dæmi um franskt eldhús eins og það gerist best.

Stjörnukokkur fannst látinn

Alain Ducasse er sennilega þekktasti kokkur heims
Alain Ducasse er sennilega þekktasti kokkur heims AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert