Það eru ólík verkefni sem koma á borð lögreglunnar og er danska lögreglan þar ekki undanskilin. Um helgina var hún kölluð til vegna deilu tveggja drukkinna ungmenna um styrk vetrarbrautar lýðveldisins í Stjörnustríði.
Rifrildi ungu mannanna, sem eru 17 og 18 ára gamlir, var svo hávært að nágrannar þeirra í Fredericia á Suður-Jótlandi fengu nóg og hringdu í lögregluna um fimmleytið á sunnudagsmorgninum.
Að sögn talsmanns lögreglunnar, Peter Balsgaard, voru mennirnir afar háværir og öskruðu og æptu hvor á annan. Hann bætir við að þeir hafi verið svo ofurölvi að ólíkar skoðanir þeirra á lýðveldinu í Stjörnustríði varð að háværum deilum.
Ungu mennirnir létu sér ekki segjast þegar lögreglan kom og reyndi að þagga niður í þeim. Þegar þeir voru spurðir til nafns svaraði sá yngri að hann héti Count Dooku, sem er ein af persónunum í Stjörnustríðsmyndunum Episodes II og III. Að lokum fékkst rétt nafn upp úr unga manninum en ekki kemur fram í frétt The Local hvort þeir hafi náð sátt um styrk lýðveldisins.