Alls verður störfum fækkað um 532 hjá Kaupmannahafnarháskóla vegna niðurskurðar á fjárlögum til skólans. Um er að ræða 7,4% af starfsmönnum skólans en meðal annars verður prófessorum og sérfræðingum sagt upp.
Alls verður 209 sagt upp störfum en ekki verður ráðið í stöður sem losna og eins verða gerðir starfslokasamningar við eldri starfsmenn. Með þessu fækkar starfsmönnum um 323.
Rektor Kaupmannahafnarháskóla, Ralf Hemmingsen, segir að þetta sé gríðarlegur missir, bæði glatist þekking og um leið samkeppnishæfi skólans með því að missa svo marga starfsmenn. Mestur verður niðurskurðurinn í stjórnsýslu og þjónustu í þeirri von að hægt verði að bjóða áfram upp á góða menntun og rannsóknir við skólann. En þetta þýðir að mikilvægur stuðningur við nemendur, rannsakendur og kennara hverfur eða verður mun minni.
Í tengslum við niðurskurðinn verður tekið á móti 10% færri doktorsnemendum við skólann á næstu árum. Hemmingsen segir að þetta þýði verulegan samdrátt í stöðu Danmerkur á sviði rannsókna og það fari að skila sér á næstu árum.
Fjárlög ríkisstjórnar hægriflokksins Venstre miða að því að minnka framlög til Kaupmannahafnarháskóla um 300 milljónir danskra króna, 5,7 milljarða íslenskra króna, á ári. Kaupmannahafnarháskóli er stærsti háskóli Danmerkur en alls eru nemendur við skólann 41 þúsund talsins.
Ríkisstjórn Danmerkur réttlætir niðurskurðinn með því að ekkert annað ríki eyði jafn miklum fjármunum í menntun og Danmörk ef miðað er við höfðatölu. Árið 2012 setti Danmörk mest af öllum OECD ríkjunum í menntun, samkvæmt tölum sem OECD birti í fyrra. Alls fóru 5% af vergri landsframleiðslu til menntastofnana landsins en næst á eftir kom Noregur með 4,9% og Ísland með 4,5%.