Karlmaður á tíræðisaldri kemur fyrir rétt í apríl í bænum Hanau í Þýskalandi en hann er sakaður um aðild að morðum í fangabúðum nasista í Auschwitz á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur og er 93 ára gamall, var vörður í útrýmingarbúðunum.
Fram kemur í frétt AFP maðurinn hafi starfað í útrýmingarbúðunum frá 1. nóvember 1942 til 25. júní 1943 en tilkynnt var á föstudaginn að maðurinn kæmi fyrir rétt. Meðan maðurinn starfaði í búðunum komu að minnsta kosti þrjár járnbrautarlestir til Auschwitz með fanga frá Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi. Aðallega gyðinga. Rúmlega eitt þúsund manns af þeim sem komu með lestunum létu lífið í gasklefum í Auschwitz þar sem 1,1 milljón manna lét lífið.
Þrátt fyrir háan aldur hafa læknar úrskurðað að hann sé nægjanlega heilsuhraustur til þess að koma fyrir rétt. Þó aðeins í fjórar klukkustundir á dag. Annar fyrrverandi vörður í Auschwitz, hinn 94 ára gamli Reinhold Hanning, mun koma fyrir rétt í bænum Detmold í næstu viku. Þá mun 95 ára gamall fyrrverandi sjúkraliði í Auschwitz koma fyrir rétt í Neubrandenburg í lok febrúar. Báðir eru þeir ákærðir fyrir aðild að morðum á þúsundum manna.