Yfirvöld í Sádi-Arabíu tóku í morgun af lífi egypskan mann sem hafði verið dæmdur fyrir eiturlyfjasmygl. Þar með hafa Sádi-Arabar líflátið 59 manns það sem af er þessu ári.
Ibrahim Mohammed Salman var handtekinn þegar hann reyndi að smygla ópíum í bíl sínum, að því er kom fram í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu. Hann var dæmdur til dauða fyrir afbrotið og svo tekinn af lífi í borginni Tabuk.
Flestir sem eru líflátnir í Sádi-Arabíu eru afhöfðaðir með sverði. Alls voru 47 teknir af lífi 2. janúar síðastliðinn fyrir „hryðjuverk“.
Á síðasta ári voru 153 manneskjur líflátnar, aðallega fyrir morð eða afbrot tengd eiturlyfjum, samkvæmt tölfræði AFP-fréttastofunnar.
Samtökin Amnesty International segja að fjöldi aftaka í Sádi-Arabíu á síðasta ári hafi verið sá mesti í tvo áratugi. Mun fleira fólk er samt tekið af lífi í Kína og Íran.
Samkvæmt hinni ströngu íslömsku löggjöf í Sádi-Arabíu má dæma fólk til dauða fyrir morð, eiturlyfjamisferli, vopnað rán, nauðgun og fyrir að hverfa frá trú sinni.