Mikil öryggisgæsla er í Danmörku en Danir minnast nú þess að ár er í dag liðið frá því þegar vopnaður maður skaut kvikmyndagerðarmann og öryggisvörð í bænahúsi gyðinga í tveimur árásum í Kaupmannahöfn. Þeirra verður minnst í dag.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, lagði blóm fyrir utan byggingarnar þar sem mennirnir féllu fyrir hendi Omar El-Hussein, sem er 22 ára gamall Dani af palestínsku bergi brotinn.
Árásunum í Kaupmannahöfn var líkt við hryðjuverkin í París í byrjun janúar á síðasta ári þegar ráðist var á ritstjórnarskrifstofur blaðsins Charlie Hebdo og gyðingamarkað.
„Danir hafa sýnt fram á að þeir vilji lifa í friði,“ sagði Rasmussen við blaðamenn.
„Það eru kannski mikilvægustu skilaboðin sem við getum sent hér í dag, að við munum aldrei láta undan, við munum aldrei gefast upp.“
„Við stöndum frammi fyrir því að enn steðjar alvarleg hryðjuverka ógn að Danmörku, það hefur ekki breyst. En þetta er líka staða sem við höfum brugðist við [...] Við höfum eflt leyniþjónustuna og við höfum eflt lögregluna.“
El-Hussein hóf skothríð í menningarniðstöð þar sem sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks var staddur til að taka þátt í ráðstefnu um tjáningarfrelsi. Íslamskir öfgamenn hafa haft horn í síðu Vilks eftir að hann birti mynd af Múhameð spámanni í hundslíki árið 2007.
Vilks komst undan en 55 ára gamall danskur kvikmyndagerðarmaður, Finn Nørgaard, lést og þrír lögreglumenn særðust.
Árásarmaðurinn flúði en skaut 37 ára gamlan öryggisvörð, Dan Uzan, fyrir utan bænahús gyðinga í borginni. Þar særðust tveir lögreglumenn til viðbótar.
Talið er að El-Hussein hafi verið undir áhrifum hryðjuverkanna í París í janúar í fyrra. Hann lést í skotbardaga við dönsku lögregluna nokkrum klukkustundum síðar í Nørrebro.