Freistandi gæti verið að telja orrustuna sem nú er hafin, um hver skuli fylla skarð Antonins Scalia í Hæstarétti Bandaríkjanna, sem hina endanlegu baráttu um framtíð réttarins á okkar tímum. Staðreyndin er hins vegar sú að orrustan er aðeins sú fyrsta í mun stærra stríði, þar sem framtíð bandarísku þjóðarinnar er í húfi.
Þetta segir Richard L. Hasen, prófessor í lögum og stjórnmálafræði við Kaliforníuháskóla, í grein sem birtist í Washington Post í dag.
Hann segir engan vafa leika á því að fráfall Scalia muni hafa áhrif á fjölda þeirra mála sem bíða úrlausnar dómsins, hvort sem það er deilan um hvort Obama Bandaríkjaforseti hafi farið fram úr heimildum sínum við aðgerðir í innflytjendamálum, réttindi kvenna til fóstureyðinga eða löggjöf í baráttu gegn loftslagsbreytingum.
Frétt mbl.is: Meira í húfi eftir fráfall Scalia
Úrlausnir þeirra mála, þar sem rétturinn hefði úrskurðað með fimm atkvæðum gegn fjórum með Scalia í meirihluta, eru nú í óvissu. Þegar fjögur atkvæði standa gegn fjórum við dómsúrlausn eru réttinum þrjár leiðir færar. Hann getur í fyrsta lagi vísað málinu frá með þeim afleiðingum að dómur lægri réttarins stendur án þess þó að fordæmi sé gefið með úrlausninni.
Í öðru lagi getur Hæstiréttur látið málið bíða uns níundi dómarinn bætist inn í réttinn á ný, eða í þriðja lagi dæmt í málinu á þann veg sem skauta myndi framhjá aðalatriðum þess.
Fjarvera Scalia næstu árin gæti einnig skipt sköpum hvað varðar mál sem ekki eru nú á borði réttarins en munu líklega snúa aftur sökum eðlis síns, hvort sem það eru réttindi til byssueignar, endurbætt löggjöf um fjárveitingar til frambjóðenda eða kosningaréttindi. Einkum og sér í lagi ef Obama tekst að tilnefna dómara sem dæma myndi líkt og þeir tveir dómarar sem hann hefur áður tilnefnt, Elena Kagan og Sonia Sotomayor.
En þessi jafna prófessors Hasen veltur á því að skipan réttarins verði að öðru leyti áfram sú sama. Þó hún gæti vel haldist óbreytt út kjörtímabil Obama, eða fram í janúar 2017, þá er ólíklegt að hún verði svo mikið lengur.
Í janúarmánuði, við innsetningu næsta Bandaríkjaforseta, verður hin frjálslynda Ruth Bader Ginsburg nærri 84 ára að aldri, Anthony Kennedy verður áttræður og Stephen Breyer verður 78 ára. Til samanburðar var Scalia 79 ára að aldri þegar hann lést á laugardag.
Frétt mbl.is: Antonin Scalia látinn
Á þeim þremur áratugum sem Scalia sat á dómarabekknum holdgaði hann öll þau gildi sem íhaldsmenn í Bandaríkjum halda jafnan mest í heiðri. Scalia var tilnefndur árið 1986 af Ronald Reagan þáverandi Bandaríkjaforseta og var helsti baráttumaður hinnar stífu upprunakenningar, en samkvæmt henni hefur bandaríska stjórnarskráin fasta þýðingu og túlkun hennar breytist ekki með tímanum.
Þessum rökum studdi hann þær skoðanir sínar að enginn vafi léki á um lögmæti dauðarefsingar eða réttindi almennings til að bera skotvopn. Scalia, sem var þekktur kaþólikki, þótti oft skorinorður þegar hann varði þessi réttindi og þá einnig þegar hann barðist gegn rétti kvenna til fóstureyðinga, aðgerðum til hjálpar minnihlutahópum eða hinni svokölluðu „samkynhneigðu stefnu“.
Scalia var fyrsti Bandaríkjamaðurinn af ítölskum uppruna til að gegna starfi dómara við réttinn og var einnig sá sem hafði gegnt því lengst af þeim dómurum sem eftir sitja. Barack Obama Bandaríkjaforseti minnist Scalia sem gnæfandi persónu innan lögfræðinnar. „Hann var afburðasnjall lögfræðingur með tilþrifamikinn stíl, hárbeitta hnyttni og litríkar skoðanir.“