Veðurfyrirbrigðið El niño sem fór á kreik í fyrra er eitt það öflugasta sem sögur fara af en er nú í rénun, að sögn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO). Engu að síður hefur fyrirbrigðið enn mikil áhrif á veðurfar á jörðinni og hefur stuðlað að hnattrænum hitametum.
WMO segir að El niño sem á sér stað á tveggja til sjö ára fresti hafa þegar náð hámarki sínu. Rísandi hitastig sjávar undanfarna mánuði sýni hins vegar áframhaldandi áhrif veðurfyrirbrigðisins. Búist er við því að El niño ljúki um miðbik ársins.
Því hafði verið spáð að fyrirbrigðið yrði það öflugasta í fimmtán ár og reyndust þær spár stofnunarinnar á rökum reistar. Á síðustu mánuðum síðasta árs mældist hitastig sjávar um tveimur gráðum á celsíus yfir meðaltali. Í yfirlýsingu frá WMO kemur fram að El niño-atburðurinn sem nú er í gangi jafnist á við sérstaklega öfluga slíka atburði árin 1982-1983 og 1997-1998.
„Hlutar Suður-Ameríku og Austur-Afríku eru enn að jafna sig eftir gríðarlegar rigningar og flóð. Efnahagslegi og mannlegi kostnaðurinn við þurrk er að koma æ betur í ljós í suðurhluta og á Horni Afríku, miðri Ameríku og á fjölda annarra svæða,“ segir í tilkynningu WMO.
Vísindamenn segja að loftslagsbreytingar valdi ekki veðurfyrirbrigðum eins og El niño en að hækkandi hitastig sjávar vegna þeirra hafi áhrif á styrk þeirra og tíðni.