Albert Woodfox, sem setið hefur í öryggisfangelsi í Louisiana í 43 ár, þar af í einangrun í 40 ár, er laus úr afplánun. Hann var dæmdur fyrir morð á fangaverði árið 1972 en hann hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. Woodfox var sleppt eftir að hafa samþykkt ákæru fyrir manndráp.
Fangelsið sem Woodfox er í er skammt frá fyrrverandi þrælaplantekrunni Angola. Woodfox var læstur inni í klefa sem 183x244 cm að stærð, 23 tíma á sólarhring, þar sem dagsbirta er nánast engin.
Woodfox var dæmdur í fangelsi 1971 fyrir vopnað rán. Hann hóf afplánun í Angola og varð strax einn af meðlimum Svörtu hlébarðanna, samtaka sem létu mikið að sér kveða í réttindabaráttu blökkumanna á sjöunda og áttunda áratugnum, í fangelsinu.
Árið 1972 var hann dæmdur fyrir morð á fangaverði. Engar áþreifanlegar sannanir tengja Woodfox við morðið og sakfelling hans byggðist einkum á vitnisburði samfanga hans sem hlaut náðun fyrir vikið. Woodfox heldur því fram að pólitískar ástæður liggi að baki sakfellingunni, þar sem hann var meðlimur í Svörtu hlébörðunum.
Frétt mbl.is: „Þeir geta aldrei brotið mig niður aftur“