Eldur kom upp í byggingu fyrir hælisleitendur í austurhluta Þýskalands í morgun. Sumir þeirra sem vitni urðu að brunanum fögnuðu innilega að sögn lögreglu. Þá reyndu sumir að koma í veg fyrir að slökkviliðsmenn kæmust að eldinum til að slökkva hann. Enginn slasaðist í brunanum en þak hússins er ónýtt.
Lögregla telur að um íkveikju hafi verið að ræða. Lögreglumennirnir sem rannsaka brunann sinna venjulega málum sem tengjast öfgamönnum. Um þrjú hundruð hælisleitendur dvöldu í húsinu en það var áður hótel.
Fyrir nokkrum dögum reyndu mótmælendur í þýska bænum Clausnitz að koma í veg fyrir að bílstjóri kæmist leiðar sinnar með hælisleitendur í rútu.