Engar bætur duga fyrir ranglætið

Albert Woodfox
Albert Woodfox AFP

Amnesty International-samtökin segja frelsun Albert Woodfox úr Angola-fangelsinu í Louisiana eftir fjögurra áratuga einungrunarvist löngu tímabæra og sjálfsagða. Ekkert muni þó bæta fyrir þá grimmilegu og niðurlægjandi meðferð sem hann hefur sætt af hálfu Louisiana-ríkis.

Fyrri frétt mbl.is: Woodfox laus úr afplánun

Þetta er haft eftir yfirherferðarstjóra samtakanna í Bandaríkjunum en Albert Woodfox var látinn laus síðasta föstudag, á 69. afmælisdegi sínum. Hann var sakfelldur fyrir morð á fangaverði alfarið á grunni upplýsinga frá samfanga sem bendlaði hann við morðið gegn náðun. Sakfellingunni hafði verið hrundið margsinnis en yfirvöld í Lousiana höfðu þráast við að sleppa honum eins og öðrum svokallaðra Angola þriggja, nefndum eftir fangelsinu sem þeim var haldið í.

Einangrunarvistin augljóslega form af pyntingum

„Lausnardagur Woodfox ætti einnig að marka tímamót í umbótum á notkun langrar einangrunarvistar í bandarískum fangelsum. Mál Woodfox verður að vera sárköld áminning um þá vægðarlausu grimmd sem fangar hafa mátt sæta af hálfu fangelsyfirvalda. Brýnt er að Louisiana-ríki geri umbætur á notkun einangrunarvistar og marki stefnu til að binda enda á þann víðtæka vanda sem yfirfull fangelsi landsins eru,“ segir í tilkynningu frá Amnesty International.

Sérstakur rannsóknaraðili Sameinuðu þjóðanna á pyndingum, Juan Mendez, fordæmdi einangrunarvistina sem Woodfox sætti og sagði að „hún jafngilti augljóslega pyntingum, og ætti að vera aflétt þegar í stað.“

Samtökin í Bandaríkjunum og víðar fagna því að þrotlausri baráttu Woodfox og lögmanna hans fyrir réttlæti sé nú lokið. Samtökin hafa gripið til yfir 650.000 aðgerða vegna einangrunarvistar Woodfox og hinna Angola 3 fanganna, m.a. á Íslandi. Þúsundir Íslendinga létu sig mál Woodfox varða og þrýstu á ríkissaksóknara í Louisiana að láta hann tafarlaust lausan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert