Eftirmaður Sepp Blatters á forsetastól FIFA verði kosinn á aðalfundi samtakanna í Zurich á föstudaginn kemur. Fimm karlmenn hafa tilkynnt um framboð sitt. Af þeim 207 fulltrúum sem munu greiða atkvæði í kjörinu eru einungis tvær konur.
Isha Johansen er ein þeirra en hún situr fundinn sem forseti knattspyrnusambands Afríkuríkisins Sierra Leone. Kjör hennar vakti miklar deilur í heimalandinu eins og Johansen sjálf greinir frá í áhugaverðu viðtali við Aftenposten.
„Þeir [karlmenn] skilja ekki hvað kona er að gera í þessum karlmannsheimi,“ segir Johansen, aðspurð hver viðbrögðin hafi verið þegar hún hlaut kjör árið 2013. Johansen er gift Norðmanni en býr í Freetown í Sierra Leone auk þess sem hún dvelur talsvert í Lundúnum.
„Hátt settur maður í knattspyrnuhreyfingunni kallaði mig vændiskonu í útvarpsviðtali og spurði hvers vegna fólk hafi stutt mig. Íþróttafréttamaður sagði að ég væri skömm fyrir konur og að engin kona vilji verða eins og ég,“ segir Johansen.
Hún hefur lengi haft mikinn áhuga á knattspyrnu og stofnaði ásamt eiginmanni sínum liðið Johansen FC á stríðshrjáðu svæði í heimalandinu. Margir af leikmönnum liðsins voru heimilislaus börn sem áttu fortíð sem barnahermenn.
Sjá frétt mbl.is: Ali vill frestun á forsetakjörinu
„Knattspyrnuhreyfingin í landinu var í afar lélegu standi. Allir gerðu bara það sem þeim sýndist undir merkjum knattspyrnunnar. Það voru margar dökkar hliðar á knattspyrnunni á þessum tíma. Þótt það verði það síðasta sem ég geri, þá ætla ég að breyta hlutunum til hins betra. Það er loforðið sem ég gaf,“ segir Johansen.
Sjá viðtalið í heild sinni á vefsíðu Aftenposten.